Hæstiréttur Íslands sýknaði stéttarfélagið VR af skaðabótakröfu Söru Lindar Guðbergsdóttur í dag. Hún hafði krafið stéttarfélagið um tvær milljónir króna í skaðabætur vegna eineltis sem hún átti að sögn að hafa upplifað í sinn garð af hendi Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR.

Dómur hæstaréttar sýknaði VR af kröfunni en var þó klofinn við ákvörðunartökuna. Tveir dómarar af þremur voru þá þeirrar skoðunar að framkoma Ólafíu í garð Söru hafi verið ábótavant. Þó væri framkoman ekki þeirrar tegundar að gera mætti kröfu til bóta vegna þeirra.

Í stuttu máli er forsaga málsins sú að Sara Lind var ráðin til VR árið 2012, en þá var Stefán Einar Stefánsson, eiginmaður hennar, formaður stéttarfélagsins. DV ljóstraði svo upp um að Sara Lind hefði verið ráðin þrátt fyrir að vera ekki hæfust þeirra sem um starfið sóttu.

Söru var sagt upp rúmum þremur mánuðum síðar, en þá hafði Ólafía tekið við formannsstöðu stéttarfélagsins. Söru fannst þá illa vegið að sér af hendi Ólafíu og sótti hana því til saka fyrir dómstólum fyrir einelti. Henni fannst það felast í því að hún hefði verið sniðgengin, og að komið hefði verið í veg fyrir að hún héldi fundi.