JP Morgan á nóg eigið fé og það er kominn tími til að ríkisstjórnir hætti að tala um að þurfa að þjóðnýta banka.

Þetta sagði Jamie Dimon, forstjóri bandaríska fjárfestingabankans JP Morgan á fundi leiðtoga World Economic Forum í Davos í Sviss í morgun.

„Við værum í enn betri málum ef við myndum hætta að tala um þessar fjárans þjóðnýtingar [...] staða okkar er góð og við eigum nægt eigið fé til halda rekstrinum stöðugum og auka við okkur verkefni,“ sagði Dimon.

Um miðjan janúar kynnti JP Morgan þó uppgjör fjórða ársfjórðung þar sem hagnaður bankans hafði dregist saman um 76% milli ára.

Dimon sagði þá að uppgjörið væru vonbrigði en myndi þó efla starfsmenn bankans í að gera betur. Hann sagði að stjórnvöld ættu að hugsa sig um áður en þau þjóðnýta banka – sumir bankanna eigi einfaldlega að fá að fara á hausinn án afskipta stjórnvalda.

„Það er stundum verið að setja nýja vél í gamlan bílskrjóð,“ sagði Dimon um svokallaða björgunarpakka.