Segja má að verðbréfamiðlarar á Wall Street hafi fengið óvænta pásu frá vinnu sinni sl. föstudaginn. Nánast öll viðskipti stöðvuðust í Kauphöllinni í New York á meðan kylfingurinn Tiger Woods hélt sinn fyrsta blaðamannafund eftir að hann varð uppvís að því að vera konu sinni ótrúr.

Samkvæmt frétt Bloomberg fréttaveitunnar fór fjöldi hlutabréfa sem skiptu um hendur niður í eina milljón hluti á sömu mínútu og Woods byrjaði blaðamannafund sinn. Það þykir mjög nokkuð í Kauphöllinni í New York og sérstaklega vekur athygli hvað viðskiptum fækkaði mikið á sömu mínútu og fundurinn hófst.

Ekki verður efni blaðamannafundarins rakið hér enda lítið tengt viðskiptum og atvinnulífinu, svona að mestu leyti, en athygli vekur að á sömu mínútu og Woods lauk blaðamannafundi sínum skiptu 6 milljón hlutir um hendur í kauphöllinni sem er álíka mikið og iðulega gerist strax við opnun markaða á meðaldegi í New York.

Á meðan blaðamannafundinum stóð var mjög rólegt í kauphöllinni að sögn Bloomberg og þá bárust sérstaklega fá tilboð inn í kauphöllina á meðan fundnum stóð. Slíkt „pása" þykir heldur óvenjuleg á föstudegi, og þá sérstaklega í ljósi þess að á fimmtudag hækkaði bandaríski seðlabankinn daglánavexti sína um hálft prósentustig sem enn jók á viðskipti föstudagsins.