*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 16. september 2020 20:02

Walmart fetar í spor AHA

Prófanir verslunarrisans Walmart á heimsendingum með drónum byggjast á prófunum íslenska fyrirtækisins AHA.

Sveinn Ólafur Melsted
Maron Kristófersson, annar stofnenda AHA, fylgist spenntur með einum af drónum AHA hefja sig á loft.
Aðsend mynd

Bandaríski verslunarrisinn Walmart hóf á dögunum prófanir á heimsendingum til viðskiptavina með drónum, í bænum Fayetteville í Norður-Karólínu. Drónasendingarnar eru unnar í samstarfi við ísraelska drónafyrirtækið Flytrex. Íslenska fyrirtækið AHA hefur um nokkurra ára skeið átt í samstarfi við ísraelska fyrirtækið og staðfestir Maron Kristófersson, annar stofnenda AHA, að prófanir Walmart byggi á prófunum sem AHA hefur stundað hér á landi undanfarin þrjú ár.

„Þetta kerfi sem þeir eru að gera prófanir á hefur hvergi verið notað jafn mikið og af okkur á Íslandi og það sem þeir eru að prófa núna er ekki ósvipað því sem við gerðum 2018. Það er hins vegar frábært að fá svona stóran aðila til að nota kerfið þar sem það mun auka þróunarhraða verulega." segir Maron.

Maron segir ríkja nokkra óvissu um hversu langt sé hægt að ná með drónasendingar hér á landi, enda erfitt að byggja upp viðskiptamódel sem er viðkvæmt fyrir veðri og vindum. Því hafi AHA áttað sig fljótt á því að tækifærin í drónasendingum væru að mestu fólgin í að herja á erlenda markaði, en óstöðugt veðurfar á Íslandi sé einstaklega heppilegt til að reyna ólíkar aðstæður.

„Eins og staðan er í dag felast mestu tækifærin fyrir okkur í að nýta þessa þekkingu sem við höfum verið að skapa hér á Íslandi á erlendri grundu sem hluta af heildarlausninni sem við bjóðum. Eftir að hafa gert prófanir hér við ýmiss konar veðurskilyrði getum við sagt með miklu sjálfsöryggi að þegar við náum að jafnaði að fljúga fimm af sjö dögum vikunnar hér, þá ættum við að geta flogið nær alla daga vikunnar á meginlandi Evrópu og í Bretlandi."

Maron segir að unnið sé að því að selja heildarlausn AHA erlendis, en sú lausn nær yfir netverslun, tínslu og dreifingu. „Það hefur verið stefna okkar að bjóða ekki bara upp á hugbúnað og þá ferla sem tengjast slíkum rekstri, heldur einnig að geta sýnt fram á forskot og framsýni til næstu 10-15 ára. Við höfum vakið umtalsverða athygli erlendis fyrir drónaverkefnið, en ekki síður fyrir að hafa náð að rafvæða 100% af bílaflotanum okkar strax árið 2018.  Það er styrkur okkar að geta boðið upp á hugbúnaðinn auk þess að geta miðlað af reynslunni af rekstri og þjónustu hans."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um stöðu Icelandair.
  • Lögmenn eru ósáttir við tímagjald vegna greiðslustöðvunar.
  • Lífeyrissjóðir gætu lent í kröppum dansi vegna lágra vaxta og skorts á fjárfestingakostum. 
  • Hótelstjóri Hótel Sögu ræðir um stöðu félagsins.
  • Ingvi Týr Tómasson er í ítarlegu viðtali um háleit áform Strax.
  • Rætt er við forsprakka nýs íslensks rjómalíkjörs sem stefnir á að lenda í hillum Vínbúða í kringum áramót.
  • Steinunn Pálsdóttir, nýr lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um nýja stjórnarskrá.
  • Óðinn skrifar um Icelandair og loforðaflaum Framsóknarflokksins.
Stikkorð: Walmart drónar AHA