Westpac bankinn, sem gert hefur 17,6 milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboð í St. George bankann, býr sig nú undir að fleiri tilboð berist í St. George sem gæti hækkað verðið á þeim síðarnefnda. Ef af kaupum Westpac á St. George verður mynda þeir saman næststærsta banka Ástralíu.

Westpac gáfu í dag út yfirlýsingu þar sem segir að bankinn hafi gert sanngjarnt tilboð hvað varðar bæði skilmála og verð í St. George. Hins vegar áskilji bankinn sér rétt til að endurskoða tilboðið telji hann aðstæður krefjast þess.

Bankastjóri St. George bankans sagði á laugardag að hann byggist við því að aðrir bankar fylgdust með gangi mála og að St. George væri tilbúinn að skoða önnur tilboð ef þau bærust.

St. George hafa átt erfitt með fjármögnun í lánsfjárskrísunni nú og ollu fjárfestum vonbrigðum með því að skera niður hagnaðarspá sína vegna hækkandi fjármögnunarkostnaðar, að því er segir í frétt Reuters.