Breska smásölufyrirtækið Woolworths, sem Baugur á 28% hlut í gegnum Unity-fjárfestingarfélagið, sem einnig er í eigu FL Group, hefur gert samkomulag við Virgin fyrirtækið um að sjá þeim fyrir DVD-mynddiskum, tónlist, bókum og tölvuleikjum.

Samningurinn við Virgin, sem starfrækir 127 verslanir á Bretlandi og Írlandi, er til þriggja ára og er talið að með gerð samningsins muni velta Woolworths aukast um 200 milljónir punda á ári, eða upp í samtals 1,2 milljarða punda á ári.

Samkomulagið við Virgin kemur einu ári eftir að Woolworths missti samning sinn við Tesco um sölu og dreifingu á tölvuleikjum, DVD-mynddiskum og geisladiskum til fyrirtækisins.

Eftir slæma sölu í kringum jólahátíðina hefur fyrirtækið unnið að því að sækja inn á nýja markaði í smásölu. Hlutabréf Woolworths höfðu hækkað um 3,5% rétt fyrir lokun hlutabréfamarkaðarins í gær og stóðu í 33,39 á hlut.