Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, opnar í dag nýja 1.000 fermetra heilsuræktarstöð World Class í nýju húsnæði við Lágafellslaug í Mosfellsbæ.

Um leið verður efnt til fjölskylduskemmtunar og opins húss þar sem gestir geta kynnt sér húsakynnin og aðstöðuna. Í nýju heilsuræktarstöðinni er fullkominn tækjasalur, leikfimisalur, barnaleikherbergi auk aðgangs að Lágafellslaug og þeirri aðstöðu sem laugin býður upp á. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá World Class.

„Opnun stöðvarinnar er liður í átaki World Class þar sem markmiðið er að færa heilsuræktarstöðvar nær íbúum höfuðborgarsvæðisins og auðvelda þannig fleirum að stunda reglulega heilsurækt," segir í fréttatilkynningunni.

„Tilkoma heilsuræktarstöðvarinnar mun auðvelda mörgum okkar viðskiptavinum sem búa í Mosfellsbæ og nágrenni að stunda reglulega heilsurækt. Að sama skapi vonum við að nýja stöðin verði mörgum öðrum hvatning til að byrja í heilsurækt en það er einstakt að geta samnýtt kosti hefðbundinnar heilsuræktarstöðvar og sundlaugar með þessum hætti,“ sagði Björn Leifsson í tilefni opnunarinnar.

Um leið og nýja heilsuræktarstöðin var tekin í notkun var undirritaður samningur um að World Class styrki fimleikadeild Aftureldingar.