Flugfélagið WOW air hefur endursamið við hótelvefinn Booking.com. Samningurinn veitir Wow air svigrúm til að gefa enn frekari afslætti á flugmiðum gegn því að viðskiptavinir kaupi flug og hótelherbergi í sömu bókun.

„Markmið okkar er að geta boðið viðskiptavinum okkar að klára alla þætti ferðalagsins í einni bókun og fá þannig enn hagstæðari verð en ef bókað er í sitthvoru lagi. Það er mjög ánægjulegt að við höfum náð samningum við þetta virta fyrirtæki sem byggir upp viðskipti sín á sama máta og WOW air, það er að geta ávallt boðið lægstu verðin“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Booking.com B.V. er hluti af Priceline Group sem á og rekur Booking.com, sem er leiðandi umboðsskrifstofu bókana á gistirýmum um allan heim. Á hverjum degi eru yfir 700.000 herbergisnætur bókaðar á Booking.com. Fyrirtækið var stofnað árið 1996 og eru höfuðstöðvar þess staðsettar í Amsterdam í Hollandi ásamt 135 skrifstofum í 50 löndum um allan heim. Um 8.000 manns vinna frá svæðisbundnum skrifstofum og gæta þess að tryggja gegnsæi, framboð og bestu verðin hverju sinni.