Flugfélagið Wow air stækkar við sig plássi og tekur sjöundu hæðina á leigu í turninum við Höfðatorg. Er starfsemi fyrirtækisins nú rekin í þremur byggingum við Katrínartún í Reykjavík, en höfuðstöðvar þess eru í Katrínartúni 12.

Ætlar fyrirtækið þó að byggja nýjar höfuðstöðvar á Kársnesi í Kópavogi, en bæjaryfirvöld úthlutuðu félaginu lóð þar síðastliðið vor.

Eru með 700 starfsmenn í þremur byggingum

„Við erum að stækka svo hratt og erum með um 700 starfsmenn og þurftum að stækka við okkur þangað til við kláruðum höfuðstöðvar okkar í Kópavogi,“ segir Skúli Mogensen forstjóri Wow air í viðtali við DV um þá ákvörðun að taka hæðina á leigu.

Var þar áður til húsa hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail en starfsemi þess hefur verið flutt í Nýja Norðurturninn við Smáralind.

„Við erum í Katrínartúni 12 og í húsinu við hliðina á, þannig að við erum nú með þær tvær byggingar og hæðina í Turninum.“