Kínverski snjallsímaframleiðandinn Xiaomi er verðmætasta frumkvöðlafyrirtæki heims í tæknigeiranum, einungis fjórum árum eftir að það var stofnað.

Samkvæmt frétt BBC um málið réðst Xiaomi nýlega í fjármögnun upp á rúman milljarð Bandaríkjadala. Fyrirtækið er þar með metið á 45 milljarða dala, sem jafngildir 5700 milljörðum íslenskra króna.

Eftir hlutafjáraukninguna er fyrirtækið orðið verðmætara en bandaríska frumkvöðlafyrirtækið Uber, sem er metið á 40 milljarða dala.

Xiaomi hefur á stuttum tíma komist í hóp stærstu snjallsímaframleiðenda heims með Apple og Samsung, en fyrirtækið hefur einbeitt sér að framleiðslu ódýrari snjallsíma.