Hildur Inga Björnsdóttir frá  hönnunarfyrirtækinu Xirena var nýlega verðlaunuð fyrir bestu markaðsáætlunina við útskrift í verkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH) sem Útflutningsráð Íslands stendur að í samvinnu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Landsbanka Íslands, Bakkavör Group, Byggðastofnun, Samtök iðnaðarins og Félag kvenna í atvinnurekstri.

Xirena er hönnunarfyrirtæki sem leggur áherslu á markaðssókn til London og Berlín. Varan er nýtískuleg avant-garde hönnun á skartgripum og skartfatnaði hentar hún vel til sölu í listamannahverfum stórborga.

Að þessu sinni tóku fulltrúar átta fyrirtækja þátt í námskeiðinu.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs og formaður stýrihóps vegna ÚH námskeiðanna, greindi frá niðurstöðum um val á bestu markaðsáætluninni.

„Stýrinefndin telur að í skýrslu Hildar Björnsdóttur frá fyrirtækinu Xirena komi fram heildsteypt og skýr markaðsáætlun og hrífandi grunnhugsun á vörunni sem sé gegnumhugsuð frá hönnun til markaðar. Varan spannar samspil listar, nútíma hönnunar, lífsstíls og markaðsmála.“

Í fréttatilkynningu frá Útflutningsráði segir að Þetta sé 18. árið sem ÚH námskeið er haldið á vegum Útflutningsráðs. Um er að ræða þróunarverkefni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa áhuga á að hefja útflutning eða festa í sessi útflutning sem þegar er hafinn.