Yahoo hefur gripið til aðgerða gegn sendendum óvelkomins fjölpósts sem þykjast senda hann í nafni Yahoo. Viðtakendum póstsins er sagt að þeir hafi unnið í happadrætti, í þeim tilgangi að fá þá til að gefa upp lykilorð eða kreditkortanúmer sín í þeirri trú að heiðarlegt vel þekkt fyrirtæki fái þær upplýsingar.

„Þessi óleyfilega notkun á vörumerki Yahoo er villandi og hefur svikið almenning og ruglað hann í ríminu“ sagði Joe Siino, einn varaforseta Yahoo, samkvæmt frétt Guardian. „Yahoo er ákveðið í að vernda notendur sína gegn svikatölvupóstum og þessi lögsókn sendir skýr skilaboð til svindlaranna“ sagði varaforseti Yahoo Mail, John Kremer. „Við erum að eltast við einstaklinga sem hafa reynt að hafa neikvæð áhrif á tölvupóstsamskipti. Okkar meginmarkmið er að vernda notendur Yahoo tölvupósts gegn slíku.“

Lögsókn Yahoo nú kemur stuttu eftir að sendandi óvelkomins fjölpósts í gegn um Myspace síður var dæmdur til greiðslu 230 milljóna Bandaríkjadala í bætur til eigenda vefsetursins.