Arion banki hefur þegar afskrifað um sjö milljarða króna með hinni svokölluðu 110% leið, þ.e. þegar fasteignaveðlánaskuldir viðskiptavina eru lækkaðar niður í sem nemur 110% af virði eignarinnar. Í heild hefur bankinn afskrifað 13 milljarða, af þeim 22 milljörðum sem bankarnir hafa afskrifað af húsnæðisskuldum heimilanna.

Arion banki bauð upp á leiðina frá 1. desember 2009 til 1. júlí 2010. Ekki voru settar kvaðir um hámark afskrifta á fyrrnefndu tímabili en að meðaltali nam afskrift af lánum 4,4 milljónum.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum nýttu yfir þúsund viðskiptavinir bankans sér fyrrnefnda leið á því tímabili sem boðið var upp á hana. Samkvæmt samkomulagi stjórnvalda, Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóðanna og bankanna verður 110%-leiðin útfærð framvegis með þeim hætti að hámarksafskrift verður 4 milljónir á einstaklinga og 7 milljónir á hjón.