Á tímabilinu 2014-2017 voru 1.608 fyrirtæki í örum vexti, þar af 62% í byggingastarfsemi, verslun og ferðaþjónustu, og hjá þeim störfuðu 41 þúsund starfsmenn. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar .

Fyrirtæki í örum vexti eru þau sem hafa að minnsta kosti þrjá starfsmenn í upphafi tímabils, og árlegan meðalvöxt rekstrartekna eða launþega upp á 10% eða meira yfir þriggja ára tímabil. Ofangreind tölfræði miðast við vöxt rekstrartekna, en sé horft til fjölgunar launþega voru 977 fyrirtæki í örum vexti, 65% af þeim í byggingastarfsemi, verslun og ferðaþjónustu, og hjá þeim störfuðu 33 þúsund starfsmenn.

Miðað við rekstrartekjur fækkar fyrirtækjum í örum vexti lítillega milli ára, en árið áður hafði þeim fjölgað töluvert. Frá fyrstu tölum árið 2011 hafði þeim, miðað við nýjustu tölur 2017, fjölgað um 69%. Sé horft til fjölgunar launþega fjölgaði fyrirtækjum í örum vexti um 7,5% milli ára og hafa aldrei verið fleiri, og þeim hafði fjölgað um 117% frá 2011.