Alls eiga 6.171 starfandi félög á Íslandi eftir að skila ársreikningi vegna ársins 2008. Samkvæmt lögum um skil á ársreikningum, sem samþykkt voru fyrir tveimur árum, ber félögum að skila reikningum eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Sá frestur rann út í ágústlok í fyrra.

Á meðal félaga sem ekki hafa skilað ársreikningi eru stór fjárfestingarfélög sem áttu eignir sem bankarnir hafa verið með í fjárhagslegri endurskipulagningu. Þetta eru til dæmis félög eins og Kjalar, í eigu Ólafs Ólafssonar, og Gaumur, í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans. Skili félög ekki ársreikningum eru einu viðurlögin sem þau eru beitt fésektum að hálfri milljón króna. Ársreikningar eru einu opinberu gögnin sem sýna eignarstöðu félaga og því er hægt að halda henni leyndri með því að skila þeim ekki.

Að sögn Huldu Sigmundsdóttur hjá Ársreikningaskrá er heildartala þeirra sem skila ekki reyndar mun hærri. „Alls hafa 8.778 félög ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2008. Inni í þeirri tölu eru þó félög sem hafa orðið gjaldþrota eða búið er að afskrá. Ef þau eru dregin frá þá eru eiginleg vanskil hjá rúmlega sex þúsund félögum.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um skil ársreikninga í Viðskiptablaðinu.