Yfirdráttarlán heimilanna námu í lok september um 69 milljörðum króna og drógust saman um rúman einn milljarð króna frá því í ágúst, en síðastliðna tólf mánuði hafa yfirdráttarlán til heimila aukist um fimm milljarða króna, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Ef litið er til þróunar yfirdráttarlána heimilanna lengra aftur í tímann þá kemur í ljós að þau drógust lítillega saman haustið 2004 þegar viðskiptabankarnir hófu að bjóða íbúðalán til almennings. Á fjórða ársfjórðungi 2004 drógust yfirdráttarlán til heimila saman um fimm milljarða króna en þegar komið var fram á annan ársfjórðung 2005 höfðu þau aukist um tíu milljarða króna og stóðu í 65 milljörðum króna," segir greiningardeildin.

Hún segir að Innlend útlán innlánsstofnana hafi staðið í 2.400 milljörðum króna í lok september og hafa aukist alls um 846 milljarða króna að raunvirði á síðastliðnum tólf mánuðum.

?Dregið hefur úr raunútlánavexti síðastliðna 2 mánuði sem gæti verið jafnframt haldið aftur af vexti einkaneyslu, þar sem útlánavöxtur og einkaneysla haldast iðulega í hendur. Ef áframhald verður á þessari þróun eru það jákvæðar fréttir fyrir stöðu þjóðarbúsins þar sem samdráttur í einkaneyslu er einn af lykilþáttum í aðlögun hagkerfisins að nýju jafnvægi," segir greiningardeildin.