Vegna ummæla stjórnarformanns Dagsbrúnar á aðalfundi fyrirtækisins og forstjóra fyrirtækisins í Viðskiptablaðinu í dag hefur Síminn sent frá sér tilkynningu. Þar segir:

Síminn afgreiðir tæplega 80% beiðna um flutning á símanúmerum sem koma frá Og Vodafone á um tveimur til fjórum dögum. Þetta kemur fram í úttekt sem Póst- og fjarskiptastofnun gerði á því hversu fljótt Síminn tengir ný símanúmer, flytur talsímanúmer milli símafyrirtækja og tengir ADSL við símanúmer viðskiptavina sinna og annarra fjarskiptafyrirtækja á árinu 2005. Könnunin var gerð í lok síðasta árs.

?Þetta er skilvirkasta þjónusta sem þekkist í Evrópu. Ástæður þess að hluti beiðna er ekki afgreiddur jafn hratt er sá að oft eru þær ófullnægjandi og því fer tími í það á milli félaganna að leiðrétta rangar beiðnir. Forsvarsmönnum Dagsbrúnar er því bent á að taka til í eigin ranni. Síminn frábíður sér ásakanir af þessu tagi," segir í tilkynningunni.