Hún dugði skammt yfirlýsing bandaríska seðlabankans frá því í gærkvöldi því markaðir vestanhafs lækkuðu í dag, í fyrsta skipti í þrjá daga.

Bandaríski seðlabankinn tilkynnti í gær að bankinn hygðist kaupa skuldabréf fyrir rúmlega 1.000 milljarða dali og við það ruku markaðir upp, enda töldu flestir, bæði greiningaraðilar og fjölmiðlar að þarna væri stigið stórt skref í átt að endurreisn bandaríska hagkerfisins.

Efasemdaraddir um skuldabréfakaupin hafa þó fengið að hljóma í dag og telja viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar að kaupin muni ekki hafa tilætluð áhrif heldur sé aðeins um tímabundna lausn á löngu vandamáli að ræða.

Nasdaq vísitalan lækkaði í dag um 0,5%, Dow Jones um 1,2% og S&P 500 um 1,3%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg. Þannig lækkuðu bankar á borð við JP Morgan, Morgan Stanley, Bank of America, Goldman Sachs, Citigroup og Wells Fargo á bilinu 5,7% - 9%.

Hráolíuverð hækkaði verulega í dag og fór í fyrsta skipti yfir 50 dali frá því í janúar. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 51,05 dali og hafði þá hækkað um 6%.