Íslenska lögmannsstofan Promptus var milliliður Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, í uppsetningu félags hans á Panama og stofnun svissneskra bankareikninga árið 2014. Eigandi hennar er Kristján Gunnar Valdimarsson. Þetta kom fram í Kastljósi í gær.

Í október 2013 sendi Kristján tölvupóst til Mossack Fonseca. Í tölvupóstnum, sem birtur var í Kastljósi í gær, segist hann hafa viðskiptavini sem vilja stofna fyrirtæki. Hann óskar eftir því að stofna til viðskiptasambands þar sem hann er milliliður fólks við Mossack Fonseca. Hann hafi áður starfað hjá Landsbankanum og þá stofnað félög í samvinnu við Mossack.

Árin 1991-1993 starfaði Kristján sem skattstjóri í Vestfjarðaumdæmi og árin 1993-2000 var hann skrifstofustjóri eftirlitsskrifstofu skattstjórans í Reykjavík. Síðar var hann forstöðumaður skattaráðgjafar hjá Búnaðarbankanum og forstöðumaður skattasviðs og einkabankaþjónustu Landsbankans.

Í viðtali í Kastljósinu neitaði Kristján því að ofangreind þjónusta sé ástæða þess að hann hafði samband við fyrirtækið. „Mossack Fonseca er ekki bara með aflandsfélög,“ sagði Kristján.

Þegar fréttamaðurinn nefnir að hjá félagi Júlíusar Vífils hafi verið sérstaklega óskað eftir því að hans nafn komi hvergi fram segist Kristján ekki muna eftir því.