Yfirmaður gjaldeyrisviðskipta hjá HSBC bankanum hefur verið handtekinn og sakaður um að reyna að hafa áhrif á gjaldeyrismarkaði.

Innherjaupplýsingar nýttar

Mark Johnson alþjóðlegur yfirmaður gjaldeyrisviðskipta staðsettur í London var handtekinn í gær þegar hann var staddur í New York. Var hann færður fyrir rétt í Brooklyn ásamt Stuart Scott, yfirmanni gjaldeyrisviðskipta bankans fyrir Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku.

Eru bankamennirnir tveir sakaðir um að reyna að nota innherjaupplýsingar til að græða á 3,4 milljarða Bandaríkjadala gjaldeyrisviðskiptum sem þeir voru að vinna að.

Um 40% af öllum gjaldeyrisviðskiptum heimsins fara í gegnum London, en á þessum gríðarlega stóra markaði eru um 5.300 milljarðar dala í viðskiptum á hverjum degi.