Greiningardeild Íslandsbanka telur að viðbrögðin á markaði í dag og gær við tilkynningu Fitch Ratings séu meiri en efni standa til. Þeir benda á að Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni hefur nú hækkað um 16% það sem af er ári sem er dágott og umfram okkar væntingar í upphafi árs. Lækkunin nú er því sumpart eðlileg í ljósi mikillar hækkunar á árinu segir greiningardeild Íslandsbanka.

Tilkynning Fitch Ratings í gær hefur haft mjög neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Úrvalsvísitalan lækkaði í gær um 3,3% og hefur lækkað um 3%. Lækkunin í gær og dag er almenn hjá félögunum í Kauphöllinni. Bréf í FL Group hafa lækkað talsvert en þau bréf hafa einmitt hækkað hvað mest undanfarnar vikur. Verð á bréfum í Marel og HB Granda hefur þó hækkað lítillega en hagur þessara félaga vænkast þegar gengi krónunnar lækkar. Verð á bréfum í stærstu félögunum í Kauphöllinni, KB banka, Íslandsbanka og Landsbanka hefur lækkað skarpt. Svo virðist sem fjárfestar meti það svo að tilkynning Fitch hafi neikvæð áhrif á lánskjör erlendis.