Nýjasta bók spennusagnahöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, Brakið, er í efsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 11. desember til 17. desember.

Þetta er önnur vikan í röð sem Brakið er mest selda bókin en í síðustu viku velti hún Einvíginu eftir Arnald Indriðason úr sessi. Einvígið hafði þá verið mest selda bókin í þrjár vikur á undan.

Listinn er nú tekinn saman vikulega og birtur á vef Rannsóknarsetursins.

Í þriðja sæti listans er bókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson. Hún hefur verið á topp 10 listanum lengi og er nú næst mesta selda bókin það sem af er ári, en hefur síðustu vikur verið mest selda bókin.

Í fjórða sæti er bókin Útkall – ofviðri í Ljósufjöllum eftir Óttar Sveinsson og í fimmta sæti er Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur.

Einvígið slær gamlingjanna út

Þrátt fyrir að Einvígið, bók Arnalds Indriðasonar, sé nú ekki lengur í efsta sæti hins vikulega lista getur Arnaldur vel við unað. Einvígið er nú orðin mest selda bókin það sem af er þessu ári og ýtir Gamlingjanum sem skreið út um gluggann úr sessi.

Brakið eftir Yrsu kemur þó ekki langt á eftir í þriðja sæti en í fjórða sæti yfir mest seldu bækur það sem af er ári er  Stóra Disney köku- og brauðgerðabókin.

Yrsa er þó eini höfundurinn sem á tvær bækur á lista yfir topp 10 mest seldu bækur á árinu en bókin  Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól, er í sjöunda sæti.

Sjá listann í heild sinni.

Einvígið eftir Arnald Indriðason
Einvígið eftir Arnald Indriðason
© Aðsend mynd (AÐSEND)