Þýsk stjórnvöld hafa ekki gert nægilega mikið til þess að stemma stigu við niðursveiflunni í efnahagslífinu.

Þetta kemur fram í skýrslu „efnahagsvitringanna” sem gefin var út í dag.

Í henni er spáð að enginn hagvöxtur verði í landinu á næsta ári og að atvinnuleysi aukist.

Um er að ræða skýrslu fimm helstu efnahagsráðgjafa þýskra stjórnvald  og er leitt að því líkum í breska blaðinu Financial Times að hinn svartsýni tónn sem í henni er slegin verði til þess að kröfur um gripið verði til frekari efnahagsráðstafanna.

Efnahagsvitringarnir slá svartsýnni tón í spá sinni en stjórnvöld en þau gera ráð fyrir 0,2% hagvexti á næsta ári.

Fram kemur í skýrslunni að12 milljarða evra efnahagspakki sem stjórnvöld samþykktu í síðustu viku sé „lauslegt samansafn af óskyldum úrræðum” sem munu ekki skila árangri. Þverpólitísk áköll eru uppi um að ríkisstjórnin grípi til viðameiri aðgerða vegna efnahagsástandsins en áherslur flokkanna eru ólíkar.

Þungavigtarmenn í röðum Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel kanslara, vilja að gripið verði til lækkana á tekjuskatti. Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, Sósíaldemókratar, eru hinsvegar með efasemdir um að skattalækkanir skili árangri. Þeir eru hinsvegar reiðubúnir til þess að samþykkja aðgerðir til þess að auka eftirspurn eftir bifreiðum.

Sem kunnugt hefur þýski bifreiðaiðnaðurinn orðið fyrir barðinu á minnkandi eftirspurn vegna fjármálakreppunnar og hafa framleiðendur dregið úr framleiðslu í verksmiðjum víða um Þýskaland.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar virðast einnig styðja frekari efnahagsaðgerðir að hálfu ríkisvaldsins. Í byrjun vikunnar var haft eftir Joschka Fischer, leiðtoga græningja, í Financial Times að hann vilji aðgerðir sem fela í sér fjárfestingu á hálfu hins opinbera.