Þýskt hagkerfi riðar nú á barmi samdráttar og reiknað er með því að hagvöxtur í landinu verði aðeins um 0,2% á næsta ári.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC og er haft eftir hugveitum og greiningaraðilum frá Þýskalandi.

Í skýrslu sem unnin er sameiginlega af rannsóknarmiðstöðvunum Ifo, IfW, RWI og IWH kemur fram að reiknað sé með því að útflutningsiðnaður í Þýskalandi muni á næstu misserum ekki fá síðri skell en fjármálageirinn. Hins vegar er talið að fjármálageirinn muni jafna sig nokkuð fljótt og á miðju næsta ári muni fjármálastarfssemi í landinu ná stöðugleika á ný.

Þá mælist ZEW væntingavísitalan í mínus 63 stigum nú en var mínus 41 stig í september.

Skýrsluhöfundar reikna með því að hagvöxtur í Þýskalandi mælist í besta falli 1,8% fyrir árið í ár en var 2,5% í fyrra. Þar heldur útflutningsiðnaðurinn hagvexti á floti – í bili, að sögn skýrsluhöfunda.

Eins og áður kemur fram er reiknað með 0,2% hagvexti á næsta ári en hagfræðingar í Þýskalandi segja að hagvöxtur geti allt eins orðið neikvæður um 0,8%.

„Þýskt hagkerfi er á barmi samdráttar haustið 2008,“ segir í skýrslunni.

„Fjölmargir neikvæðir þættir hafa hlaðið upp óveðursskýjum yfir þýskan efnahag.“

Skýrsluhöfundar hrósa þó Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og þeim björgunaraðgerðum sem kynntar voru um helgina. Þeir segja aðgerðirnar flýta fyrir stöðugleika hagkerfisins.