Larry Ellison er eitt af óþekktari nöfnum meðal ríkustu manna heims (ríkustu 10 einstaklingar heims eru allir karlmenn), og það sama á líklega við um fyrirtækið sem kom honum á listann.

Hann er meðstofnandi, stjórnarformaður og tæknistjóri hugbúnaðarrisans Oracle, sem selur ýmiss konar hugbúnað og hugbúnaðarþjónustu fyrst og fremst til fyrirtækja.

Ellison hætti í háskóla á 7. áratugnum og fór að vinna sem forritari. Árið 1977 stofnaði hann hugbúnaðarfyrirtækið Software Development Laboratories með tveimur félögum sínum og fyrrum samstarfsfélögum, og tveimur árum síðar gáfu þeir út fyrstu útgáfu gagnasafnshugbúnaðarins Oracle.

Vinsældirnar stóðu ekki á sér og fljótt var nafni fyrirtækisins breytt í Oracle Systems Corporation. Ellison leiddi uppgang félagsins í 37 ár sem framkvæmdastjóri, en hætti loks í því hlutverki árið 2014. Í seinni tíð hefur hann meðal annars setið í stjórn rafbílaframleiðandans Tesla frá 2018 til 2022.

Larry Ellison

  • 118 milljarðar dala
  • Meðstofnandi, stjórnarformaður og tæknistjóri Oracle
  • 43% í Oracle
  • Bandaríkin
  • 78 ára

Fjallað er um Ellison og fleiri auðjöfra, meðal annars ríkustu Íslendingana, í tímariti Frjálsrar verslunar sem kemur út fimmtudaginn 13. apríl. Hægt er að kaupa eintak af blaðinu eða gerast áskrifandi hér.