Í rúman áratug hefur Róbert Wessman leitt uppbyggingu lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech. Róbert er talinn meðal auðugustu Íslendinganna samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar á ríkustu Íslendingunum.

Alvotech var skráð á markað síðasta sumar hér á landi og í Bandaríkjunum. Hlutabréfaverð Alvotech tók að rísa undir lok síðasta árs og fór í marsmánuði í fyrsta sinn meira en 40% yfir útboðsgengi félagsins.

Hluthafar Alvotech hafa beðið ákvörðun bandaríska lyfjaeftirlitsins FDA um markaðsleyfi á fyrsta lyfi félagsins í Bandaríkjunum með nokkurri eftirvæntingu. Það er líftæknihliðstæða af Humira, mest selda lyfi heims. Vonast hefur verið eftir að ákvörðun FDA verði kynnt í dag, 13. apríl.

Þá hefur gengi lyfjafyrirtækisins Lotus sem skráð er á markað í Taívan meira en tvöfaldast í verði síðan Aztiq, fjárfestingafélag Róberts og meðfjárfesta, og taílenskt ríkisfjárfestingafélag keyptu meirihluta félagsins á síðasta ári.

Seljandi á hlutnum í Lotus var Alvogen, sem Aztiq er jafnframt stór hluthafi í.

Þá eiga Róbert og meðfjárfestar einnig nokkurt safn fasteigna hér á landi í gengum fjárfestingafélagið Flóka. Róbert á auk þess nokkuð fasteignasafn erlendis, þar á meðal kastala og vínekrur í Frakklandi.

Frjáls verslun gerir þann fyrirvara á verðmatið að erfitt sé að meta auð Róberts með nákvæmum hætti. Eignarhald hans á fyrirtækjunum er í mörgum tilfellum í gegnum fjölda eignarhaldsfélaga og sjóða sem að baki eru talsverðar skuldir, flókin hluthafasamkomulög og lánasamningar.

Nánar er fjallað í málið í ríkustu Íslendingana í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið greinina í heild í hér.

Forsíða nýjasta tímarits Frjálsrar verslunar.