*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Gunnar Baldvinsson
29. mars 2020 13:51

Að ávaxta fé í lágvaxtaumhverfi

Á að geyma fá á innlánsreikningum eða í verðbréfasjóðum — kaupa hlutbréf eða skuldabréf — greiða upp lán — er kannski engin ástæða til að spara við þessar aðstæður?

Hvernig á fólk að ávaxta peningana sína þegar vextir eru í sögulegu lágmarki? Er einhver ástæða til að geyma fé á innlánsreikningum þegar vextir duga varla til að halda í við verðbólgu? Er skynsamlegt að geyma fjármuni í verðbréfasjóðum þegar stór hluti ávöxtunar er greiddur í umsýslulaun? Hvar eru fjárfestingartækifæri þegar margt bendir til þess að verð á skuldabréfum, hlutabréfum og öðrum eignamörkuðum sé hátt á ýmsa mælikvarða? Eru fasteignir góður ávöxtunarkostur í þessu umhverfi? Eða er kannski engin ástæða til að vera að spara við þessar aðstæður?

Vextir sögulega lágir

Vextir á fjármálamörkuðum hafa víðast hvar farið lækkandi á síðustu áratugum og eru sögulega lágir í mörgum löndum [mynd 1 - efst á síðunni]. Helstu áhrifavaldar eru lægri verðbólga, aukinn lífeyrissparnaður og markviss skuldabréfakaup erlendra seðlabanka sem eru hluti af svokallaðri magnbundinni íhlutun og hafa aukið eftirspurn eftir skuldabréfum.

Á Íslandi hafa vextir aldrei verið lægri frá því að verðtrygging var tekin upp um 1980. Þegar þetta er skrifað er hægt að kaupa verðtryggð ríkisskuldabréf á ávöxtunarkröfunni 0,14% til 0,51% og óverðtryggð á ávöxtunarkröfunni 2,74% til 2,83% (jafngildir um 0,2% til 0,3% raunávöxtun miðað við 2,5% verðbólgu á ári) [mynd 2]. Þeir sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum með milligöngu verðbréfasjóða greiða umsjónarlaun sem eru almennt á bilinu 0,7% til 1% af eignum. Þar sem umsjónarlaunin dragast frá ávöxtun eru töluverðar líkur á að sjóðirnir skili neikvæðri raunávöxtun við núverandi vaxtastig og óbreytt umsjónarlaun.

Vextir á óverðtryggðum innlánsreikningum eru frá 0,05% (veltureikningar) upp í 3,7% (bundinn reikningur til 5 ára) og bundnir verðtryggðir vextir frá 1,10% til 1,45% (lífeyrissparnaður).

Vextir og ávöxtun

Vaxtalækkun hefur almennt jákvæð áhrif á ávöxtun verðbréfa en vaxtahækkun dregur úr ávöxtun og getur jafnvel leitt til neikvæðrar ávöxtunar. Verð skuldabréfa ræðst af markaðsvöxtum á hverjum tíma og hækkar þegar vextir lækka. Ávöxtun þeirra hefur því verið góð á liðnum árum. Lágir vextir geta einnig leitt til hækkunar á eignaverði á hlutabréfum og öðrum eignum, meðal annars vegna lægri fjármagnskostnaðar fyrirtækja og vegna þess að þá leitar fjármagn fjárfesta, sem annars hefði farið í skuldabréf eða innlán, í aðrar eignir sem veldur því að verð á þeim hækkar.

Verðmæti hlutabréfa er metið út frá framtíðartekjum hlutafélaga og þegar vextir lækka þá hækkar núvirt tekjustreymi. Eftir góða ávöxtun á alþjóðlegum hlutabréfum síðustu 10 ár er margt sem bendir til þess að verð hlutabréfa sé hátt á ýmsa mælikvarða. Í Bandaríkjunum eru til dæmis flestar verðkennitölur skráðra hlutabréfa yfir sögulegu meðaltali. Ein þeirra er markaðsvirði hlutabréfa deilt með þjóðarframleiðslu [mynd 3]. Margir líta til þessarar kennitölu og einn af þeim er fjárfestirinn Warren Buffet en hann sagði í viðtali við tímaritið Fortune árið 2001 að kennitalan væri líklega besti einstaki mælikvarðinn á verðlagningu hlutabréfa á hverjum tíma. Kennitalan sýnir að verðmæti hlutabréfa hefur sjaldan verið hærra en um þessar mundir.

Ef litið er yfir langt tímabil á vestrænum verðbréfamörkuðum hefur raunávöxtun hlutabréfa verið á bilinu 5% til 6% að jafnaði og um skuldabréfa um 2%1. Ef tímabilinu er skipt í tímabil vaxtalækkana og hækkana er sagan allt önnur. Á tímum vaxtalækkana hafa hlutabréf að jafnaði skilað um 9% raunávöxtun og skuldabréf 3,5%. Á tímum vaxtahækkana hafa hlutabréf hins vegar skilað um 2% raunávöxtun en ríkisskuldabréf rétt yfir núlli. Greining á sögulegri ávöxtun verðbréfa sýnir einnig fylgni á milli vaxtastigs á hverjum tíma og ávöxtunar skuldabréfa og hlutabréfa næstu ára. Þegar raunvextir eru lágir hefur ávöxtun hlutabréfa og skuldabréfa að jafnaði verið undir langtímameðaltali næstu fimm ár á eftir.

Vextir geta einnig haft áhrif á fasteignaverð. Þegar vextir eru lágir lækkar fjármagnskostnaður kaupenda og eftirspurn eftir húsnæði eykst. Húsnæðisverð ræðst af byggingarkostnaði en ekki síður af framboði og eftirspurn á hverjum tíma og aukin eftirspurn leiðir að öðru jöfnu til hækkunar á fasteignaverði.

Hvað á fólk að gera við sparnaðinn sinn?

Við núverandi vaxtastig eru töluverðar líkur á að ávöxtun næstu ár verði undir langtímameðaltali. Fjárfestar, sem eru að velta fyrir sér hvernig þeir eiga að ávaxta fé núna ættu að hafa þetta í huga. Þeir sem eru að leggja fyrir til að safna fyrir eignum, til dæmis innborgun inn á húsnæði eða fyrir bíl, ættu að búa sig undir að þurfa að leggja fyrir hærra hlutfall af launum til að ná sparnaðarmarkmiði.

Horfur til lengri tíma eru óljósari og ráðast af þróun vaxta, eignaverðs og efnahagsaðstæðum. Það er mat margra hagfræðinga að vaxtalækkun síðustu áratuga sé búin að festa sig í sessi, meðal annars vegna þess að útlit sé fyrir lægri hagvöxt í þróuðum ríkjum á næstu árum og áratugum. Flestir eru þó þeirrar skoðunar að helsti áhrifavaldur að lækkun vaxta undanfarna áratugi sé aukinn lífeyrissparnaður sem hefur leitt til umframeftirspurnar eftir ávöxtunartækifærum. Á næstu áratugum mun eftirlaunaþegum fjölga og þjóðir eldast. Sú þróun getur leitt til þess að vextir á markaði hækki aftur. Haldist vextir hins vegar áfram lágir munu langtímafjárfestar einnig þurfa að auka sparnað til að ná markmiðum.

Sá sem ávaxtar fé til lengri tíma, til dæmis lífeyrissparnað, ætti að halda sínu striki og móta fjárfestingarstefnu til lengri tíma með blöndu af eignaflokkum. Þeir sem ætla ekki að nota sparnaðinn fyrr en eftir langan tíma, 10 ár eða lengur, geta og ættu að hafa hátt vægi hlutabréfa. Þegar vextir eru lágir er jafnframt ráðlegt að stytta meðaltíma skuldabréfa og leggja áherslu á breytilega vexti til að draga úr áhættu. Ef áhættuþol leyfir getur komið til greina að hækka vægi hlutabréfa og mögulegra annarra eignaflokka.

Þeir sem eru að hefja sparnað núna eða eru með nokkuð laust fé til ávöxtunar ættu að flýta sér hægt og gefa sér tíma til að byggja upp sparnað og verðbréfasafn. Við núverandi aðstæður kann að vera skynsamlegt að dreifa fjárfestingum yfir nokkurn tíma og geyma laust fé til að byrja með á innlánsreikningum eða í skammtímasjóðum. Fyrsta markmið sparifjáreiganda er alltaf að reyna að verja kaupmátt sparnaðar og lág verðbólga um þessar mundir hjálpar.

Margir spyrja um fasteignir og hvort kaup á þeim geti verið góður ávöxtunarkostur í lágvaxtaumhverfi. Fasteignir hafa hækkað mikið í verði á liðnum árum aðallega vegna þess að eftirspurn hefur verið meiri en framboð [mynd 4]. Aukið framboð lánsfjár og lækkun vaxta hefur stuðlað að þessari þróun. Ef litið er til þróunar fasteignaverðs og sögulegra sveiflna ættu þeir sem velta fyrir sér að fjárfesta núna í fasteign sem ávöxtunarkosti að vera tilbúnir að binda féð í nokkurn tíma.

Loks má benda á að þeir sem skulda geta skoðað að greiða aukalega inn á lán eða að greiða þau upp. Það er að jafnaði góður kostur þar sem lán eru yfirleitt með hærri vöxtum en fólk getur fengið á sparnaðinn sinn.

Sparnaðartími ræður mestu um áhættuþol

Fólk þarf að leggja fyrir til að byggja upp eignir, safna í neyslusjóð fyrir stærri útgjaldaliðum og eiga varasjóð. Það borgar sig alltaf að spara en sparifjáreigendur verða að fylgjast með og taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Lágir vextir geta örvað fjárfestingu og atvinnulíf sem getur verið gott fyrir efnahag þjóða og eignamarkaði. Eftir því sem vextir lækka meira aukast líkurnar á að þeir hækki aftur sem getur leitt til lækkunar eignaverðs. Þeir sem hafa stuttan sparnaðartíma þurfa að vera meðvitaðir um þessa áhættu þar sem þeir hafa almennt ekki svigrúm til að taka á sig miklar lækkanir. Langtímafjárfestar geta hins vegar yfirleitt tekið á sig verðsveiflur en reynslan sýnir að fyrir þá skiptir mestu að halda sjó og fylgja markvissri stefnu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.