*

mánudagur, 30. mars 2020
Hrafn Árnason
29. maí 2018 12:43

Að fleygja barninu með baðvatninu

Gagnrýni á Frjálsa lífeyrissjóðinn má líkja við að meta árangur knattspyrnuliða af því hversu mörg mörk þau fá á sig en ekki hversu margir leikir vinnast.

Mikil óánægja með tap á fjárfestingu Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon gæti skýrt að sex frambjóðendur vilja tvö laus sæti stjórn sjóðsins.
Aðsend mynd

Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins fer fram á miðvikudaginn í höfuðstöðvum Arion banka að Borgartúni 19 kl. 17:15. Þar verða kosnir tveir aðalmenn í stjórn sjóðsins. Það er ekki fréttnæmt. Ákveðinn hluti stjórnar er endurnýjaður á hverju ári.

Það sem er fréttnæmt er annars vegar að það eru sex framboð til þessara tveggja stjórnarsæta, sem er mun meiri fjöldi en áður hefur verið, og hins vegar að tvö þessara framboða eru tilkomin vegna óánægju með núverandi rekstraraðila sjóðsins.

Í stuttu máli þá er þessi óánægja tilkomin vegna þess að sjóðurinn tapaði rúmlega einum milljarði króna á fjárfestingum í United Silicon. Arion banki er rekstraraðili Frjálsa lífeyrissjóðsins og kom einnig að fjármögnun United Silicon. Verið er leiða að því líkur að aðrir hagsmunir en ávöxtun sjóðfélaga hafi verið forsenda fjárfestingarinnar.

Að Arion banki sé að hafa neikvæð áhrif á Frjálsa lífeyrissjóðinn og hagsmuni sjóðfélaga. Það er því augljóst út frá þessum fullyrðingum að það sé vilji til að aðskilja rekstur Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banka. Enn fremur gefið til kynna að árangur Frjálsa lífeyrissjóðsins hafi verið lélegur og sjóðfélagar hafi goldið fyrir þessa lélegu fjárfestingu.

Þessar fullyrðingar eru bara einfaldlega rangar.  Skoðum þetta nánar. Bökkum aðeins.

Vissulega töpuðust miklir fjármunir á áhættufjárfestingunni United Silicon og allt það mál er mikil sorgarsaga og hneyksli. En það var vitað að þetta væri áhættusöm fjárfesting í upphafi og því var einungis 0,5% af heildareignum Frjálsa lífeyrissjóðsins fjárfest.

Lykilhluthlutverk lífeyrissjóða er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sem best með tilliti til áhættu. Fjárfestingar í hlutabréfum eru að jafnaði áhættusamari en fjárfesting í skuldabréfum en hafa gefið hærri ávöxtun til lengri tíma litið. Þess vegna fjárfesta lífeyrissjóðir ákveðnum hluta sinna eigna í áhættumeiri fjárfestingum eins og hlutabréfum. Áhættufjárfestingar eru þess eðlis að annað hvort skila þær mjög hárri ávöxtun eða þær tapast að hluta eða öllu leyti. Þessa vegna er áhættunni dreift á margar áhættufjárfestingar.

Það að draga út eina fjárfestingu sjóðsins og krossfesta stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins fyrir, sýnir annað hvort einbeittan vilja til að slíta hlutina úr samhengi eða vanþekkingu á eðli fjárfestinga lífeyrissjóða. Enginn lífeyrissjóður í heiminum myndi standast þá kröfu að það mætti aldrei tapast einstök fjárfesting. Það fylgir því að taka áhættu. En sem betur fer bæta aðrar fjárfestingar upp fyrir þá sem glatast og meira til.

Rekstur Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur ekki verið lélegur. Þvert á móti hefur hann verið mjög góður, jafnvel framúrskarandi. Það er ekki bara mín persónulega skoðun heldur einnig IPE (Investments & Pensions Europe) sem hefur veitt sjóðnum verðlaun við 11 tilefni fyrir fagleg vinnubrögð og árangur fyrir sína sjóðfélaga. Þessi verðlaun fást ekki keypt og eru ekki veitt að tilefnislausu.

Árangurinn er það sem skiptir máli fyrir sjóðfélaga og talar sínu máli. Ávöxtun sjóðsins hefur verið framúrskarandi ár eftir ár. Meðalávöxtun sl. 15 ár nemur 8,9-9,2% á ári eftir ávöxtunarleiðum. Árið 2017 nam meðalávöxtun, þrátt fyrir tap af United Silicon, 6,3-6,8%. Rekstur sjóðsins er mjög hagkvæmur. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum var 0,33% árið 2017.

Það er enginn sjóðfélagi skyldugur til að vera í sjóðnum ólíkt mörgum öðrum lífeyrissjóðum. Óánægðir sjóðfélagar geta hvenær sem er farið í annan sjóð kjósi þeir það. Óánægjan er heldur ekki meiri en það að fjöldi sjóðfélaga sem greiða í sjóðinn hefur þrefaldast frá árinu 2000 og sjóðurinn farið úr því að vera 19. stærsti sjóður landsins í það að verða sá 5. stærsti. Rúmlega 56 þúsund einstaklingar eiga réttindi í sjóðnum.

Þannig að þessi gagnrýni á eina fjárfestingu sem fór illa, án tillits til heildarárangurs sjóðsins, er lítið annað en eftiráspeki og ekkert gagnlegt við þá rýni. Þessar ábyrgðarlitlu fullyrðingar eru eingöngu til þess fallnar að skapa glundroða hjá sjóðfélögum Frjálsa. Þessari gagnrýni mætti líkja við að árangur knattspyrnuliða væri mældur af því hversu mörg mörk þau fá á sig en ekki hversu margir leikir vinnast.

Tek það fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að Frjálsi lífeyrissjóðurinn eigi að vera bundinn Arion banka vistarböndum um eilífð. En það á ekki að breyta breytinganna vegna. Sérstaklega ekki þegar staðið er jafn vel að rekstri sjóðsins og raun ber vitni. Þessi ómálefnalega nálgun er til þess fallin að barninu sé fleygt út með baðvatninu.

Ég get því ekki setið þegjandi undir því að það sé verið að ógna þeim stöðugleika og þeim mikla árangri sem náðst hefur hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Þess vegna býð ég mig fram til stjórnar sjóðsins á ársfundinum á miðvikudaginn og óska eftir stuðningi sjóðfélaga. Hef mikla fjárfestingareynslu fram að færa auk þekkingar á fjármálatækni og stafrænni þróun sem ég tel að muni nýtast sjóðnum til frekari framdráttar.

Að lokum er rétt að taka það fram að skoðun mín byggir á 20 ára reynslu af eignastýringu og rekstri lífeyrissjóða og ég kom að eignastýringu Frjálsa lífeyrissjóðsins á árunum 2001 til 2006. Hef verið sjóðfélagi í 17 ár og hef enga hagsmuni aðra en að hámarka verðmæti míns lífeyris.

Hvet alla sjóðfélaga til að mæta á miðvikudaginn og kynna sér frambjóðendur til stjórnar og málefni þeirra.

Höfundur er sjóðsfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum og frambjóðandi til stjórnar á aðalfundi sjóðsins miðvikudaginn 30. maí.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.