Það verður að gefa Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, það að hann virðist hafa ágætis húmor ef marka má sprenghlægilega satíru sem birtist eftir hann á vísi.is í vikunni . Yfirskrift pistilsins er sú að ríkisstjórnin ráði ekki við verðbólguna en þorri pistilsins fer hins vegar í innistæðulausan lofsöng til Reykjavíkurborgar, enda kosningar handan við hornið.

***

Jóhann segir þar að gert sé ráð fyrir að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi og að helsti drifkraftur hennar sé snarhækkandi húsnæðisverð í kjölfar þess að hömlum var létt af bankakerfinu. Skautar hann þar listilega fram hjá því að hækkanir á húsnæðisverði hafa verið viðvarandi árum saman vegna framboðsskorts, sem borgin sem hann lofar svo mjög ber mikla ábyrgð á. Þá virðist hann líta fram hjá því að án húsnæðis mælist verðbólga 5,3% og að fyrirséð sé að það verði ekki húsnæðisliðurinn sem drífur áframhaldandi verðlagshækkanir.

Þrátt fyrir það sér Jóhann tilefni til að fabúlera um hve vel Reykjavíkurborg hefur staðið sig í íbúðabyggingu frá árinu 2016 í samanburði við nágrannasveitarfélögin. Það er engin tilviljun að hann kýs að draga línuna við árið 2016, því ef samanburðurinn er skoðaður frá árinu 2010, þegar Dagur B. Eggertsson varð de facto borgarstjóri við hlið Jóns Gnarr og hinna trúðanna í Besta flokknum, má sjá að borgin var árum saman eftirbátur í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og vandinn safnast upp.

Uppbygging ein og sér leysir heldur ekki vandann. Undirliggjandi vandi er lóðaskortur og eins og alkunna er hefur núverandi meirihluti ekki viljað nýta vænlegt byggingarland í nafni þéttingar byggðar. Langvarandi lóðaskortur veldur því að markaðurinn er viðkvæmur fyrir sveiflum í eftirspurn, líkt og sást t.d. við vaxtalækkanir. Samfylkingin gæti því viljað líta sér nær áður en fingrum er bent á aðra.

***

Það er huggun harmi gegn að Samfylkingin sé ekki í ríkisstjórn núna, því hún hefur ítrekað sýnt að lengi megi gera vont verra, sérstaklega í efnahagsmálum. Samfylkingin hreykir sig af árangri í húsnæðis- og fjármálum borgarinnar á meðan slóð eyðileggingar blasir við öllum öðrum. Borgarkeisarinn er nakinn.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .