*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Ásdís Auðunsdóttir
13. janúar 2022 13:50

Árið er 1918 …

Fyrstu tvær vikur ársins hafa satt að segja verið einn allsherjar mánudagur en auðvitað höfum við séð það svartara hér á hamfaraskerinu.

Katla gaus síðast árið 1918.
Haraldur Guðjónsson

Tvær vikur eru liðnar af 2022. Þemaorð ársins stefnir hraðbyri í að vera „væntingastjórnun“ og annáll næstu áramóta er strax farinn að óma í höfðinu á mér með röddu Magnúsar Hlyns: „Árið byrjaði með látum, met voru slegin í Covid-smitum og einangrun, skert siðferðisvitund varð áhrifamönnum í viðskiptalífinu að falli, lægðir gengu yfir landið og hæstaréttarlögmaður og sjálfskipaður sérfræðingur um bóluefni hótaði grunnskólakennurum afleiðingum með vísan í Nürnberg-réttarhöldin“. Þessar tvær vikur hafa satt best að segja verið einn allsherjar mánudagur.

En við skulum ekki leggja allar árar þjóðarinnar í bát. Auðvitað höfum við séð það svartara hér á hamfaraskerinu Íslandi. Ferðumst aðeins til baka.

Árið er 1918 – Það sér blessunarlega fyrir endann á seinni heimsstyrjöldinni en átökunum hefur fylgt samdráttur og skortur og yfirvöld hafa neyðst til að skammta landsmönnum nauðsynjar. Nýtt ár tekur þó miður blíðlega á móti landsmönnum með fimbulkulda sem er slíkur að janúar reynist kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld. Sama ár hefst svo eitt af stærstu Kötlugosum síðan land byggðist sem hefur í för með sér gríðarlegt jökulhlaup og öskufall, bæir leggjast í eyði og búfénaður drepst. Viku eftir að Katla fer að gjósa berst svo spánska veikin til Íslands. Þegar verst lætur liggur þriðjungur Reykvíkinga sjúkur og 484 Íslendingar láta lífið. Já tíðin hefur verið verri.

En ef fólk hefur strax fengið nóg þá er bara að bíða eftir því að „mánudagurinn“ klárist og 2023 blessi okkur með hlýrri nærveru sinni. Ég er þess fullviss að því mun fylgja sólríkasta sumar í manna minnum, Covid verður sem fjarlægur draumur og heldri menn í viðskiptalífinu fara fullklæddir og vel áttaðir í heita potta eða inn á hótelherbergi. Hvílík útópía. 

Höfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.