*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Hannes Hólmsteinn Gissur
20. apríl 2015 20:00

Ber Már Guðmundsson ábyrgð á sextíu milljarða króna tapi?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar um söluna á FIH bankanum danska.

Haraldur Guðjónsson

Talsvert hefur verið rætt um €500 milljóna (nú jafngildi um 73 milljarða króna) neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings haustið 2008, skömmu áður en bankarnir hrundu allir. Komið hefur fram, að ríkisstjórnin tók ákvörðunina um lánið, þótt Seðlabankinn veitti það og tæki á því fulla ábyrgð. Málið var svo mikilvægt, að bankinn hlaut að bera það undir stjórnina, enda sagði í lögum um bankann (nr. 36/2001), að hann skyldi „stuðla að stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu“. Í nýrri bók segist Björgólfur Thor Björgólfsson hafa heimildir fyrir því, að Samfylkingin hafi fengið því ráðið innan ríkisstjórnarinnar, að Kaupþing fékk neyðarlán, en ekki Landsbankinn. Ég skal ekki um það dæma. Væntanlega geta þáverandi ráðherrar Samfylkingarinnar upplýst, hvort þetta sé rétt.

Aðalatriðið var þó frá sjónarmiði Seðlabankans, að Kaupþing bauð fram mjög traust veð fyrir neyðarláninu, FIH-banka í Danmörku, en bókfært eigið fé hans var þá um einn milljarður evra. Að frumkvæði Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra tók bankinn svokallað allsherjarveð í FIH-banka, en það merkti, að veðið gilti um allar kröfur Seðlabankans á Kaupþing, ekki aðeins €500 milljón króna neyðarlánið. Gengið var að fullu frá öllum skjölum um veðtökuna mánudaginn 6. október. Þegar Kaupþing féll tveimur dögum síðar, var ljóst, að Seðlabankinn hefði forræði á veðinu. Davíð Oddsson var hins vegar hrakinn úr stöðu sinni í febrúar 2009, og 26. júní 2009 var Már Guðmundsson skipaður seðlabankastjóri. Seinna komst upp, að Már hafði dagana á undan skipst á tölvubréfum við Jóhönnu Sigurðardóttur um launakjör sín. Már átti raunar eftir að höfða mál gegn bankanum vegna launakjara sinna og láta bankann greiða málskostnað sinn, en það er önnur saga.

Strax eftir bankahrunið reyndi Seðlabankinn að selja FIH-banka, en horfið var frá því eftir dauflegar undirtektir í Danmörku. Fékk FIH-banki sams konar lausafjárfyrirgreiðslu frá dönskum yfirvöldum og aðrir danskir bankar. Þegar leið að því, að lánalína frá dönskum yfirvöldum rynni út haustið 2010, var Seðlabankanum gerð grein fyrir því, að hún yrði ekki framlengd, nema bankinn skipti um eigendur. Höfðu stjórnendur bankans líka látið hafa það eftir sér, að hinir íslensku eigendur stæðu bankanum fyrir þrifum. Seðlabankinn ákvað þá í samráði við skilanefnd Kaupþings að selja bankann, og bárust tvö tilboð í hann. Að ráði Más Guðmundssonar, hins nýja seðlabankastjóra, var ákveðið að taka öðru þeirra. Það var frá hópi sparisjóða og kaupsýslumanna undir forystu Christians Dyvigs, sem er kunnur og auðsæll danskur fjárfestir.

Tilboðið, sem tekið var, var upp á fimm milljarða danskra króna (nú um 98 milljarðar íslenskra króna). Greiða átti út 1,9 milljarða, en frá eftirstöðvum skyldi draga tap FIH-banka frá 30. júní 2010 til 31. desember 2014. Már Guðmundsson taldi í fréttatilkynningu, að þessi niðurstaða væri „ágæt miðað við aðstæður“. Hinir nýju eigendur tóku bankann í sínar hendur í janúar 2011. Þeir hófust þegar handa við að færa allt tap, sem venjulega dreifist á nokkur ár í bönkum, á næstu mánuði, hertu innheimtuaðgerðir og sögðu upp viðskiptum við óánægju og kurr margra viðskiptavina bankans. Síðan seldu þeir fasteignalánasafn bankans til danskrar ríkisstofnunar, og loks seldu þeir lánasöfn bankans tveimur einkaaðilum og tilkynntu, að bankinn yrði lagður niður. Á meðan á þessu stóð, fengu tveir bankastjórar bankans og kunnur fjárfestir í Danmörku, Fritz Schur, að kaupa hlutabréf í bankanum á sérkjörum.

Hinir nýju eigendur vissu mætavel, hvað þeir voru að gera. Dönskum blöðum var líka ljóst, hvað eigendurnir voru að gera. Danska viðskiptablaðið Børsen spurði 18. nóvember 2011 stjórnarformann stærsta sparisjóðsins í eigendahópnum, hvers vegna þeir færu svo harkalega að. Hann sagði, að fyrirtæki sitt væri ekki líknarfélag: „Íslendingarnir hafa „first right of refusal“. Það merkir, að þeir geta leyst til sín lánin, ef þeir telja okkur ganga of hart fram.“ Børsen sneri sér líka til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, sem vildi ekkert segja um málið. Niðurstaðan blasir nú við. Eigendurnir hafa í raun slitið bankanum, en halda eftir bókfærðu eigin fé, sem nam í árslok 2014 5,7 milljörðum danskra króna eða 112 milljörðum íslenskra króna. Líkur eru á, að þeir geti greitt sér út þetta eigið fé nær allt næstu árin. Það merkir til dæmis, að Christian Dyvig, sem lagði 190 milljónir danskra króna inn í fyrirtækið, kann að taka út úr því 570 milljónir danskra króna eða 11 milljarða íslenskra króna. Hlutur hans hefur samkvæmt því nær fjórfaldast í verði. Fritz Schur, góðvinur konungsfjölskyldunnar og stjórnarformaður SAS-flugfélagsins, sem keypti bréf fyrir um tíu milljónir, getur fengið röskar þrjátíu milljónir fyrir þau, þegar upp verður staðið. Hann hefur því hagnast um tæplega 400 milljónir íslenskra króna.

Seðlabankinn tapar líklega 3,1 milljörðum danskra króna eða 61 milljarði íslenskra króna, vegna þess að hann fær væntanlega ekkert af eftirstöðvum söluandvirðisins, en veðið, sem hann tók, var allsherjarveð og hefði þess vegna átt að ganga upp í fleiri kröfur á Kaupþing en neyðarlánið. Hinir slyngu dönsku fjármálamenn léku á Má Guðmundsson. Þessi niðurstaða var síður en svo „ágæt miðað við aðstæður“. Við hljótum að spyrja: Hvers vegna var látið undan úrslitakostum danskra stjórnvalda haustið 2010 í stað þess að reyna að hnika þeim eitthvað til? Hefði ekki átt að nota eitthvað af því lánsfé frá Alþjóðabankanum, sem lá óhreyft á reikningi í New York á háum vöxtum, til að kaupa bankann eða að minnsta kosti hluta hans, eins og hinir dönsku eigendur skoruðu á Íslendinga að gera? Hefði Már ekki átt að setja það skilyrði við söluna, að fulltrúar seðlabankans sætu áfram í stjórn bankans til að fylgjast með því, hvernig tapið, sem draga átti frá kaupverðinu, myndaðist? Til dæmis veittu dönsk stjórnvöld bankanum eftir kaupin fyrirgreiðslu (kaup á fasteignalánum), sem framkvæmdanefnd Evrópusambandsins mat jafnvirði stuðnings um mörg hundruð milljónir danskra króna. Hefði ekki átt að draga það fé frá tapinu, svo að það hefði runnið óskipt til íslenska seðlabankans? Hefði Seðlabankinn ekki fengið meira fé út úr bankanum, hefði hann verið settur í skiptameðferð, eins og hinir nýju eigendur gerðu í raun?

Ég ræði þessi spurningar og nokkrar fleiri á málstofu á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar þriðjudaginn 21. apríl kl. 13 á Háskólatorgi, stofu HT-101.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.