Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í byrjun vikunnar. Meðan á kynningunni stóð efndi Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, til uppistands á Twitter. Hrafnarnir fylgdust grannt með enda Björn mikill sprelligosi. Þegar fram kom í kynningu fjármálaráðherra að ríkissjóður hefði dregið úr áhættu í tengslum á eignarhaldi í bankakerfinu með sölu á hlut sínum Íslandsbanka skrifaði Björn á Twitter: „ :D „Áhætta“ að eiga banka á Íslandi. Dreptu mig ekki með kaldhæðni hérna.“

Hrafnarnir furða sig á skorti Björns á sögulegri yfirsýn þegar kemur að bankarekstri. En rifja má upp fyrir honum að bankakerfið fór á hausinn fyrir fjórtán árum og einnig árið 1930. Endurfjármagna þurfti ríkisbankana árið 1997 og Útvegsbankinn fór á hausinn á níunda áratugnum svo einhver dæmi um áhættuna séu tekin. Og ekki þarf að minnast á sorgarsögu Íbúðalánasjóðs í þessu samhengi.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. september 2022