*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Kári Finnsson
17. ágúst 2014 19:20

Breiðholtið skreytt

Hægt er að setja spurningarmerki við það hvort stór útilistaverk séu endilega besta leiðin til að bæta listalíf Breiðholtsins.

Aðsend mynd

Ég tek því fagnandi, bæði sem Breiðhyltingur og sem áhugamaður um myndlist, að svo virðist sem listalíf hverfisins hafi tekið vissan kipp upp á síðkastið. Vonandi heldur það áfram með einum eða öðrum hætti. Fyrst fréttum við af því að glæsilegt vegglistaverk eftir Söru Riel hefði verið reist við Asparfell. Því næst tók Nýlistasafnið ákvörðun um að flytja safneign sína í Völvufell eftir að leigan við Skúlagötuna varð þeim óviðráðanleg.

Um þessar mundir stendur yfir uppsetning á tveimur stórum vegglistaverkum eftir Erró í Hólahverfinu. Þá er stærstur hluti verksins þannig upp settur að aðeins helmingur hans sést úr fjarlægð, en hinn er næstum hulinn á bak við annað hús. Neðri hlutinn er í raun aðskilin mynd sem verður líka sett upp annars staðar í Breiðholtinu. Ákvörðunin um uppsetningu verksins á þessum stað og með þessum hætti er hvorki misskilningur né slys. Þetta verk hefur verið milli tannanna á fólki. Ýmist hneykslast fólk yfir uppsetningunni, að verkið sé ljótt eða þá að „eitthvað betra og gagnlegra“ megi gera fyrir peninginn sem settur er í uppsetninguna.

Hér ætla ég ekki að dæma um ágæti verksins, enda hef ég ekki séð það í heild sinni með berum augum og er þess vegna ekki dómbær á það. Heldur ætla ég ekki að tjá mig um eina klisjukenndustu umræðu Íslands um að stuðningur hins opinbera við listir sé peningaeyðsla. Mér er mun frekar hugleikinn rótgróinn misskilningur varðandi myndlistina – að hún þjóni einungis hlutverki sem skraut, að hún sé bara til að fegra umhverfi sitt. Þá á ég ekki við að list eigi alltaf að vera í formi flókinna innsetninga, heldur á ég við að takist henni vel til þá er hlutverk hennar í því að fegra umhverfið oft það sem er áhrifaminnst í fari hennar. Í því ljósi er hægt að setja spurningamerki við það hvort stór útilistaverk séu endilega besta leiðin til að bæta listalíf Breiðholtsins.

Hægt væri að styðja við fjölgun sýningarrýma eða vinnuaðstöðu listamanna í hverfinu svo dæmi séu tekin. Margföldunaráhrif listamannarekinna rýma á borð við Nýlistasafnið geta hugsanlega verið til þess fallin að hafa töluvert meiri áhrif til lengri tíma en stórt verk eftir Erró. Það er oft þannig að það sem er í allra augsýn og vekur strax athygli okkar glatar henni næstum samstundis. Mig grunar að Breiðhyltingar vilji að listin lifi öllu lengur í hverfinu góða.

Stikkorð: Erró Striginn breiðholt
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.