Íslensk stjórnvöld hafa stigið nokkur stór skref í viðbrögðum við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins sem nú geisar, m.a. með yfirlýsingu um ríkisábyrgð á hluta svokallaðra brúarlána fjármálafyrirtækja til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna ástandsins. Þessi skref munu vonandi leiða til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og forða gjaldþrotum fyrirtækja.

Athygli hafa vakið þau orð sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, lét falla í Silfrinu á RÚV um að hugsanlega veigruðu bankarnir sér við að veita brúarlánin í ljósi þess hversu víðtæk skilgreining dómstóla á refsiverðri háttsemi banka hefði orðið eftir fjármálahrunið 2008. Vísaði hún þar til um 20 dóma um umboðssvik sem féllu í kjölfar hrunsins þar sem einstaklingar í framlínu bankanna voru dæmdir fyrir gáleysisleg útlán. Fram að því höfðu vondar viðskiptalegar ákvarðanir ekki talist refsiverðar í eðli sínu. Orð Heiðrúnar Lindar féllu í tengslum við umræðu um brúarlánin en sú leið sem stjórnvöld hafa kynnt, gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki láni til fyrirtækja gegn ábyrgð ríkissjóðs að hluta, sem strangt til tekið kunna að vera ógjaldfær samkvæmt skilgreiningu gjaldþrotaréttar. Kunna þannig allt að 30% lánsins að vera ótryggð og alfarið á áhættu bankans. Jón Þór Ólason lögmaður steig fram í kjölfar þáttarins og sagði þetta vera rangt hjá Heiðrúnu Lind og ekki hefði verið sakfellt fyrir gáleysisleg útlán svo framarlega sem þau væru veitt innan heimilda viðkomandi lánastofnunar og séu ekki andstæð öðrum lögum og reglum.

Byggðu dóma á því að einstaklingar hefðu valdið verulegri hættu á fjártjóni með lánum

Á árunum eftir hrun kvað Hæstiréttur upp allmarga dóma þar sem fyrirsvarsmenn bankanna voru sakfelldir fyrir umboðssvik vegna lána sem veitt voru á árunum fyrir hrun og í aðdraganda ógjaldfærni fyrirtækja. Eiga margir þessir dómar það sammerkt að talið var að brotin hafi verið framin í auðgunarskyni en dómstólar beinlínis byggðu á því að einstaklingarnir, sem sakfelldir voru, hefðu með lánunum valdið verulegri hættu á fjártjóni þar sem ekki hefðu verið nægar tryggingar að baki lánunum. Bak við flest lánin voru þó hefðbundnar tryggingar þess tíma.

Samkvæmt  243. gr. almennra  hegningarlaga (hgl.) skal aðeins refsa fyrir svokölluð auðgunarbrot, þ.m.t. umboðssvik skv. 249. gr. hegningarlaga., hafi þau verið framin í auðgunarskyni. Er þá átt við, að ásetningur brotamanns hafi verið sá, að afla sér eða öðrum fjárvinnings á þann hátt, að annar maður bíði ólöglega fjártjón að sama skapi. Umboðssvikaákvæðið kveður á um að ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, í allt að 6 ára fangelsi.

Kemur beinlínis fram í forsendum dóma Hæstaréttar í hrunmálum að byggt sé á því að sakborningarnir hafi með háttsemi sinni, (þ.e. veitingu lánanna) valdið verulegri hættu á fjártjóni viðkomandi banka (þar sem lánin hafi ekki verið tryggð að fullu) og hafi getað séð það fyrir þegar lánveitingarnar áttu sér stað. Taldi Hæstiréttur þá fjártjónshættu nægja til að fullnægja lagaskilyrðinu um að brot þurfi að teljast hafa verið framið í auðgunarskyni. Sjá dóma í málum nr. 145/2014, 456/2014, 478/2014 og 498/2015.

Fyrirsvarsmenn bankanna í erfiðri stöðu

Dugi þau lán ekki til, sem bankar veita á grunni brúarlánaleiðarinnar til fyrirtækja sem eru í verulegum rekstrarörðugleikum, og fyrirtækin fara í gjaldþrot má búast við að hluti lánsins sem ekki er tryggður af ríkissjóði muni tapast. Er þá ekki loku fyrir það skotið að fyrirsvarsmenn bankanna verði í sömu stöðu og fyrirrennarar þeirra voru í fyrir hrun. Ef eftir á skoðun yrði gerð með sömu gleraugum og gert var í dómum Hæstaréttar um umboðssvik eftir hrun er varla hægt að sjá annað en að með slíkum lánveitingum væri um umboðssvik að ræða. Slíkt fær hreinlega ekki staðist og styrkir enn frekar rök þeirra sem telja að Hæstiréttur hafi farið út af sporinu með útvíkkaðri túlkun sinni á refsiverðum umboðssvikum í dómum í hrunmálunum.

Höfundur hæstaréttarlögmaður á LEX og var verjandi eins af dómfelldu í málunum 145/2013 og 498/2015.