Í Evrópu er byggingariðnaðurinn sá iðnaður sem losar hvað mest af gróðurhúsalofttegundum en þar að auki útheimtir hann upp undir 40% af allri evrópskri orkunotkun. Auk þess má áætla að 40% alls úrgangs komi frá byggingariðnaðnum. Í þessu samhengi mætti álykta að vægi byggingariðnaðarins í allri umræðu um loftslags- og umhverfismál sé að mörgu leyti vanmetinn en miðað við þá stöðu sem sem við stöndum frammi fyrir þarf að róa öllum árum í samfélaginu til að leggja okkar af mörkum gagnvart loftslagsvandanum. Um þetta er sem betur fer almennur samhljómur stjórnmála og fyrirtækja en betur má ef duga skal og nauðsynlegt er að hið opinbera komi til móts við íslenskan byggingariðnað í þeirri viðleitni að byggja á sjálfbærari og umhverfisvænni forsendum.

Rík hefð er fyrir því að hið opinbera beiti ívilnunum eða hvötum til þess að ná fram ákveðnum félagslegum markmiðum í hinu byggða umhverfi. Augljóslega má nefna uppbyggingu félagslegs húsnæðis en einnig lóðavilyrði fyrir stúdentaíbúðum eða íbúðum eldri borgara sem af veitist félagslegur ávinningur sem okkur þykir flestum sjálfsagður. Nýlega hefur Hafnarfjarðarbær tekið af skarið og beitt ákveðnum hvötum til þess að ná fram umhverfislegum markmiðum í hinu byggða umhverfi en bærinn býður nú afslátt á lóða- og gatnagerðargjaldi fyrir vistvottaða uppbyggingu. Um er að ræða myndarlega afslætti – 20 eða 30%, sé byggt eftir stöðlum vistvottunarkerfa Svansins eða Breeam. Með þessu hafa Hafnfirðingar tekið mikilvægt frumkvæði gagnvart umhverfinu og því samspili sem byggingariðnaðurinn leikur gagnvart því.

Nú er svo búið að fleiri opinberir aðilar þurfi að bregðast við loftslagsáskorunum með ívilnunum fyrir umhverfisvæna uppbyggingu. Helmingur auðlinda jarðarinnar eru nýttar til byggingariðnaðs en við búum við þannig skilyrði hér á Íslandi að flytja þarf inn langstærstan hluta alls byggingarefnis um sjóleið með tilheyrandi kolefnisfótsporum. Hér væri færi fyrir ríkið til þess að afnema til dæmis virðisaukaskatt á umhverfismerktum og vistvottuðum byggingarefnum líkt og virðisauki hefur verið afnuminn af rafmagnsbílum og að koma á fót hvötum fyrir aðila á byggingarmarkaði til þess að versla og vinna með byggingarefni með lágt kolefnisfótspor. Mikilvægt er einnig að hlúð sé vel að þeim innlendu fyrirtækjum sem framleiða byggingarefni og skapa grundvöll fyrir innlendri nýsköpun. Sóknarfæri eru í hringrásarhagkerfinu og finna þarf leiðir til þess að endurnýta og endurvinna byggingarefni sem annars færu í úrgang – í því samhengi má nefna að allt að 10-15% alls byggingarefnis sé sóað á meðan framkvæmd stendur.

Þá hafa sveitarfélögin á höndum sér ýmis verkfæri til þess að greiða fyrir grænni uppbyggingu líkt og Hafnarfjörður hefur sýnt fram á. Ekki einungis væri hægt að veita afslátt á lóða- og gatnagerðargjöldum að uppfylltum ákveðnum vistvænum skilyrðum heldur má einnig horfa til byggingarréttar- og innviðagjalda. Sveitarfélögum ber ekki skylda til þess að innheimta hvor tveggja gjaldanna og því mögulegt að afnema þau eða veita afslátt á, sé framkvæmdaaðili á leið í uppbyggingu á umhverfisvænum forsendum. Enn fremur eru til í lögum um tekjustofna sveitarfélaga undanþágur frá fasteignaskatti í tilviki sendiherrabústaða og bænahúsa svo eitthvað sé nefnt – hví ekki að veita heimild til undanþágu fyrir vistvænar byggingar?

Alkunna er að kostnaður í íslenskum byggingariðnaði er almennt mjög hár og því er hægt að líta til margra kostnaðarliða þar sem beita má sértækum hvataúrræðum. Ekki síst getur fjármagnskostnaður framkvæmdaaðila reynst hár en ítrekað hefur verið haft eftir framkvæmdaaðilum að svo sé sérstaklega í tilviki þéttingarreita þar sem skipulagsvinnan geti verið mikil og löng með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu hafa öll mótað sér stefnu um þéttingu byggðar -  ekki síst á forsendum umhverfisins og er því nauðsynlegt að horfa til þess hvernig hægt sé að gera þéttingu byggðar hagkvæmari. Ekki einungis fyrir framkvæmdaaðila og sveitarfélögin heldur fyrir umhverfið.

Höfundur er starfsmaður Grænni byggðar – vettvangs um sjálfbæra þróun byggðar.