Þegar líður að sumri og íslenska hitabylgjan (allt yfir 10°C) hellist yfir landsmenn er aðeins eitt í stöðunni, að opna alla glugga upp á gátt. Það mætti halda að hið sama ætti við um hinn svokallaða frumútboðsglugga (e. IPO window), sem virðist hafa opnast ríflega undanfarin tvö sumur. Frumútboðsglugginn er hugtak sem lýsir því hversu móttækilegur hlutabréfamarkaðurinn er fyrir nýjum félögum.

Ef markaðsaðstæður eru góðar og fjárfesta þyrstir í ný tækifæri er yfirleitt talað um að frumútboðsglugginn sé opinn og því góður tími til að fara á markað. Ef, aftur á móti, neikvæðni og óvissa eru ríkjandi og fyrirtækjum gengur illa að afla sér fjármagns er yfirleitt talað um að glugginn sé lokaður.

Í fyrra var eitt frumútboð í maí (Síldarvinnslan) og þrjú í júní (Íslandsbanki, Fly Play og Solid Clouds). Svo gerðist ekkert á því sviði þar til í maí á þessu ári, þegar Ölgerðin hélt frumútboð. Nova Klúbburinn efndi svo til útboðs í júní og sama mánuð var Alvotech skráð á markað (reyndar ekki með frumútboði).

Þýðir þetta að frumútboðsglugginn opnist bara á sumrin? Líklega ekki. Litið lengra aftur í tímann hafa útboð verið haldin á öllum tímum árs. En það má alveg fullyrða að frumútboðsglugginn hafi verið opinn upp á gátt í fyrra, enda eitt besta árið í útboðum og skráningum á heimsvísu í áraraðir.

Árið byrjaði vel

Þetta ár byrjaði líka vel, meira fjármagns var aflað í frumútboðum á alþjóðlegum mörkuðum í janúar en hafði verið gert í sama mánuði undanfarna tvo áratugi, samkvæmt Ernst & Young. Opnunin varð að rifu eftir því sem óvissa fór vaxandi og segja má að glugganum hafi verið hallað aftur með innrás Rússa í Úkraínu. Til að bæta gráu ofan á svart hefur verðbólgudraugurinn víða verið að valda usla, vextir hafa farið hækkandi og margir spá því að heimurinn stefni í efnahagslægð.

Óvissa er almennt eitur í beinum skipuleggjenda frumútboða. Sem dæmi hafa 90% frumútboða í Bandaríkjunum átt sér stað á tímabilum þegar VIX vísitalan, sem mælir flökt á hlutabréfaverði, hefur verið undir 25 (sem þýðir að sveiflur eru tiltölulega litlar). Dagslokagildi hennar hefur verið yfir því stigi um helminginn af árinu.

Þrátt fyrir þessa óvissu hafa fyrirtæki á alþjóðamörkuðum frekar slegið áformum um frumútboð á frest heldur en að hætta alveg við, sem er ólíkt því sem gerðist í aðdraganda internetbólunnar um aldamótin og fjármálakrísunnar 2008. Þegar markaðir róast á ný gætum við því séð þó nokkuð um frumútboð.

Margir hafa bent á að horfur í efnahagsmálum eru að mörgu leyti betri hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt, Seðlabankinn spáir tæplega 6% hagvexti á árinu og þrátt fyrir allt er verðbólga hér á landi sú önnur lægsta innan EES (miðað við samræmda vísitölu neysluverðs).

Seigla á erfiðum tímum

Íslenski markaðurinn hefur sýnt talsverða seiglu á erfiðum tímum, þó nokkuð hefur verið um viðskipti og leiðrétt fyrir arðgreiðslum hefur heildarvísitalan nánast staðið í stað á tólf mánaða tímabili. Útboð Ölgerðarinnar og Nova gengu líka vel á flesta mælikvarða, á tímum þegar afar lítið var um frumútboð á heimsvísu.

Von er á talsverðu innflæði erlends fjármagns á hlutabréfamarkaðinn í tengslum við uppfærslu vísitölufyrirtækisins FTSE Russell á íslenska markaðnum, sem tekur gildi síðar í þessum mánuði. Þá er enn mikið fé á bankabókum og þrátt fyrir hækkandi vexti eru innistæður að brenna á verðbólgubálinu, sem ætti að hvetja til fjárfestinga. Góðar hagvaxtarhorfur og mikil fjölgun ferðamanna gefur einnig vonir um að rekstur innlendra fyrirtækja verði almennt með ágætum og um kröftuga uppsveiflu hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Ýmis fyrirtæki gætu því haft góða sögu að segja fjárfestum og séð tækifæri í skráningu á hlutabréfamarkað.

Þó þetta sé líklega ekki nóg til að opna frumútboðsgluggann upp á gátt þá er að lágmarki rifa á honum og klárlega tækifæri til staðar, sérstaklega fyrir réttu fyrirtækin.