*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Ósk Heiða Sveinsdóttir
15. maí 2021 13:43

Er menning í matinn?

„Eru sjálfsagðir hlutir í lagi, skilja allir ábyrgð sína og vilji, geti og þori að koma fram með endurgjöf um hvernig mögulegt er að bæta frammistöðu fyrirtækisins?“

epa

Hef oft heyrt þessa setningu: menning étur stefnu í morgunmat (e. Culture Eats Strategy For breakfast – Peter Drucker), en ekki spáð í því hvað lægi þarna á bak við. Þegar vel gengur í breytingafasa fyrirtækisins þá er eins og öll púsl smelli saman á endanum en þegar illa gengur fer öll orka í hringiðuna sem myndast og erfitt er að sjá hvar vandinn liggur.

Stafræn umbreyting og tækifærin sem þar liggja er „make it or break it“ á mörgum sviðum. Ekki gleyma grunninum að því að árangur náist, peppandi stefna á plakati gerir bara x mikið. Þá kemur inn menningin, þessi mjúku en grjóthörðu innri mál sem raunverulega geta skilið á milli þess að árangur náist og ekki. Menningin snertir allt: stefnuna, sýnina og taktinn, það sem stefnubreyting fyrirtækja byggir á og er grundvöllur framfaraskrefa. 

Hver er svo staðan? Búið er að liggja yfir gögnum, framkvæma kannanir, fara yfir sigra og sorgir síðasta árs, takast á og stilla strengi. Markmiðin komin og nú þarf að ná þeim. Nú á menningin sviðið. Þetta ósagða og óskrifaða í bland við það sem er meitlað í stein og hefur alltaf verið svona. Til þess að sett markmið og sýn náist, verða atriði eins og mannauður og fyrirtækjamenning að taka við hjóðnemanum á stóra sviðinu. 

Menning, menning, menning! 

Huga verður að mikilvægi mannlega þáttarins svo að markmið stafrænnar umbreytingar náist, því þrátt fyrir strategíska, mælanlega og skilgreinda stefnu og sýn, þá er það menningin sem hefur tögl og hagldir þegar kemur að því að móta umhverfið sem nauðsynlegt er til að markmið náist. Hér er fullt af tækifærum en aðalatriðið er að litið sé á þetta sem undirbúningsþátt áður en strategían er keyrð inn.

Við vitum að þegar menning er góð þá bara gengur allt betur. Við vitum betur en svo að segja að góð menning sé það sama og að hafa píluspjald á skrifstofunni eða þegar fyrirtækið býður upp á afbragðs gott kaffi og bakkelsi. Jú, það skapar vissulega huggulegt andrúmsloft á vinnustaðnum en það er ekki nema örlítill partur af því sem menning er. Píluspjaldið gerir ekkert nema safna ryki ef engin stemming er fyrir því að nota það. Hressar árshátíðir í stafrænum heimum koma sterkar inn til að rífa allt upp. Þetta er ekki svona auðvelt; sterk og virk menning er grundvöllur þess að fyrirtæki eigi möguleika á að nýta kraft stafrænnar umbreytingar til þess að sækja fram. Hér getur menningin raunverulega étið allt sem að kjafti kemur og hægt verulega á góðu og vel ígrunduðu innleiðingunni. 

Spurðu bara 

Til þess að árangur náist verða þessir þættir – fyrirtækjamenning og stefna – að vinna saman, enda er mannauðurinn grunnur þess að mögulegt sé að sækja fram. Sérstaklega þegar leggja á áherslu á stafræna umbreytingu, bætta þjónustu og betri rekstur. Mikilvægur þáttur í því að mæta og fara fram úr væntingum er að þora að prófa nýja hluti og stoppa ekki. 

Upplifun viðskiptavinarins verður að vera ofarlega á dagskrá þeirra sem ætla ekki að sitja eftir í rykinu þegar stafræna þruman þýtur hjá. Gögn nýtast afar vel til að taka upplýstar ákvarðanir, sé raunverulega unnið með þau. Mæli með því að spyrja bæði viðskiptavini og fólkið þitt, þá sem raunverulega hitta viðskiptavini á hverjum degi. Það koma alltaf fram ábendingar sem koma á óvart, eitthvað sem þau sem fjær standa þjónustuveitingunni hafa ekki yfirsýn yfir. Sé menningin tilbúin í breytingar þá er grundvöllur fyrir nýja hugsun og sókn. Þetta er ekki flókið – spyrðu fólkið þitt! Það er engin ástæða til þess að taka ákvarðanir byggðar á gömlum upplýsingum og úreltri stöðu. 

Eru sjálfsagðir hlutir í lagi, skilja allir ábyrgð sína og vilji, geti og þori að koma fram með endurgjöf um hvernig mögulegt er að bæta frammistöðu fyrirtækisins? Hvort sem það tengist samstarfsfólki, stjórnendum, verkefninu sem það er að vinna að? Vandamálin sem voru til staðar hverfa ekki, þau geta vissulega breyst, en þau hverfa ekki.

Ekki spyrja nema þú viljir fá svar. Bestu svörin eru beitt. Hver einasti starfsmaður hefur áhrif á menningu fyrirtækisins og getur magnað upp eða brotið niður grunninn fyrir breytinguna sem er nauðsynleg. Stafræn umbreyting felst meðal annars í því að nýta stafræna hugsun til að búa til tækifæri og breyta viðskiptaferlum til að mæta breyttum kröfum á markaði, já eða fara fram úr þeim. Stærra en ný vara og ferill, hjarta umbreytingarinnar er að skapa nýjar leiðir til viðskipta, ekki bara að innleiða nýja tækni. 

Ef við hugsum til baka, þá eigum við öll sögur, góðar og slæmar, af innleiðingum. Hvernig vöxtur á sér stað, framþróun og krafturinn sem myndast þegar við aðlögum okkur að nýrri sýn og allir tengi mikilvægt hlutverk sitt við markmiðin. Stafræn umbreyting felst í því að grípa töfrana sem verða til þegar fólk kemur fram með hugmyndina sína og virkjar eldmóðinn sem í því býr til að gera betur og hafa áhrif; ólíkar raddir skipta máli. Ekki éta stefnuna. 

Höfundur er forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.