Samskiptaleiðir fyrirtækja við viðskiptavini hafa farið sífjölgandi með tilkomu stafrænna miðla. Mikið af þjónustu er að mestu eða alfarið komin á netið í hinum ýmsu atvinnugreinum. Þar má til dæmis nefna bankaþjónustu, tryggingar og fjarskiptaþjónustu.

Íslenskir neytendur kjósa í auknu mæli að geta nýtt sér þjónustu í gegnum stafrænar lausnir þrátt fyrir stuttar vegalengdir og gott aðgengi að bílum. Þetta á ekki aðeins við um þjónustu heldur er ljóst að þetta er einnig þróunin í verslun. Á skömmum tíma höfum við séð mikla aukningu í netverslun og breytta kauphegðun með tilkomu stafrænna lausna eða með notkun stafrænna lausna innan verslana (e. phygital products).

Mörg fyrirtæki hafa staðið sig með prýði þegar kemur að því að verða við þessari breyttu hegðun neytenda, enda ekki annað hægt ef halda á í viðskiptavinina. Nú þegar hafa komið fyrirtæki, jafnvel ný, inn á íslenskan markað sem hafa náð verulegri markaðshlutdeild á skömmum tíma, aðeins með vefverslun að vopni í samkeppni við hefðbundnar verslanir.

Margar lausnir

Það eru margar lausnir í boði til að taka þátt í stafrænni umbreytingu til að auka aðgengi viðskiptavina að eigin vöru og þjónustu, en er vörumerkið þitt tilbúið í þá vegferð?

Vörumerki og ásýnd fyrirtækja er gjarnan ein verðmætasta eign þeirra. Því er mikilvægt að vörumerkið sé vel búið fyrir stafræna miðla, enda óhjákvæmilegt fyrir flest fyrirtæki að vera með einhverja birtingarmynd þar. Mörg vörumerki voru hönnuð fyrir tíma snjallra lausna og áður en flest allt var aðgengilegt í gegnum netið. Við hönnun á þeim vörumerkjum var ekki hægt að gera ráð fyrir öllum þeim breytingum sem á eftir fylgdu, svo sem þessari miklu notkun á agnarsmáum skjáum og hvernig litir af þeim skjáum birtast. Það er fullkomlega eðlilegt að ekki hafi verið hægt að sjá fyrir þeim miklu breytingum sem hafa orðið.

Vörumerki hönnuð fyrir prentmiðla þola ekki alltaf umbreytingu yfir á stafræna miðla.

Raunin er þó sú að þetta vandamál á ekki bara við um eldri vörumerki. Gamlar venjur deyja seint, og enn sjáum við ný vörumerki sem eru meira og jafnvel eingöngu hönnuð fyrir prentmiðla. Vörumerki sem ekki eru hönnuð fyrir stafræna miðla munu seint teljast líkleg til árangurs í stafrænum heimi.

Þessum vörumerkjum fylgja ýmis vandamál sem gerir það að verkum að vefhönnuðir sem eiga að vinna með þau, þurfa að byrja á að „redda sér“ og breyta notkun vörumerkisins til að búa til nothæfa skjáhönnun. Vörumerki hönnuð fyrir prentmiðla þola ekki alltaf umbreytingu yfir á stafræna miðla. Þetta getur valdið ósamræmi í skilaboðum og ásýnd vörumerkisins, sem getur sent misvísandi skilaboð til viðskiptavina og dregið úr áreiðanleika vörumerkisins.

Vörumerki eru lifandi

Vörumerki sem hafa ekki öfluga ásýnd á stafrænum miðlum eiga á hættu að útiloka og skilja eftir stóra markhópa, bæði þau sem eiga erfitt með að umgangast vörumerkið með öðrum hætti en í gegnum stafræna miðla, til dæmis vegna búsetu, opnunartíma og skertrar líkamlegrar getu, og þau sem einfaldlega kjósa að sækja þjónustu eða verslun að mestu í gegnum stafrænar lausnir. Þá er ljóst að það eru alltaf einhverjir samkeppnisaðilar sem leggja áherslu á að ásýnd vörumerkisins virki sem best á stafrænum miðlum, því er hætta á að þeir sem gera það ekki dragist aftur úr og missi viðskiptavini til samkeppninnar.

En hvað gerir vörumerki tilbúið fyrir stafræna nálgun? Vörumerkið þarf að hugsa frá grunni þannig að það verði notað á stafrænum miðlum, hvort sem það á við um hönnun á nýju vörumerki eða við endurmörkun eða uppfærslu vörumerkis áður en stafræn vegferð hefst. Notendur eiga að geta þekkt vörumerkið hvort sem það er á stórum auglýsingaskiltum eða litlum snjallúrum. Vörumerkið þarf því að geta skalast vel og virkað á misstórum flötum. Huga þarf sérstaklega að aðgengismálum (e. accessibility), það er að vörumerkið sé nothæft fólki sem á erfiðara með hinar ýmsu daglegar athafnir, en þetta eru stórir markhópar sem telja um 20% alls fólks. Þetta geta verið algengir örðugleikar á við verri sjón eða litblindu, og þess vegna þarf að huga sérstaklega að lesanleika á völdum leturgerðum og læsileika þeirra með valdri litapalettu og stærðum, bara til að nefna lítið dæmi.

Vörumerki eru lifandi og þurfa að aðlagast með breyttum tímum og birtingarmyndum. Ef þitt vörumerki var ekki hannað sérstaklega með stafræna nálgun í huga er vert að skoða hvort samræmi sé á milli almennar notkunar á vörumerkinu og notkunar þess á stafrænum miðlum, hvort það skalist vel á milli mismunandi skjástærða og hvort það uppfylli staðla um aðgengismál. Ef ekki, gæti verið tímabært að skoða uppfærslu eða endurmörkun (e. rebranding) með tilliti til stafrænnar nálgunar, til að tryggja að samhljómur sé í ásýnd fyrirtækisins og að vörumerkið virki þvert á alla miðla og fyrir alla markhópa.

Sigtryggur Arnþórsson er framkvæmdastjóri Jökulá hönnunarstofu.

Greinin birtist í sérblaði sem gefið var út vegna afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.