Hrafnarnir hlýddu fagnaðarerindið á fundi Landsvirkjunar um upprunaábyrgðir í gærmorgun. Þar talaði meðal annars Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun um að það væri val íslenskra fyrirtækja að hætta að nota kolaorku og kjarnorku með tilheyrandi geislavirkum úrgangi – þau gætu einfaldlega borgað Landsvirkjun meira fyrir raforkuna og þá yrði orkan sem áður var græn – aftur græn.

Á fundinum var talað eins og það væri uppgrip fyrir íslenskt hagkerfi að selja upprunaábyrgðir og því teflt fram að fyrir andvirðið gæti öll þjóðin flogið til Tene og aftur til baka.

En það er þetta með hádegisverðinn. Auðvitað er það íslenskt atvinnulíf og almenningur sem borgar brúsann, annaðhvort með því að greiða hærra verð fyrir raforkuna eða með því að selja undan sér grænu orkuna. Það var kúnstugt að hlusta á rökstuðning norsks sérfræðings fyrir kerfinu, en kerfið hefur verið gagnrýnt harðlega þar í landi, bæði á þingi og í atvinnulífinu. Þar sagði Lars Ragnar Solberg kerfi upprunaábyrgða koma í veg fyrir tvöfalt bókhald, vegna þess að þar með léki enginn vafi á uppruna orkunnar.

Ekki rekur hrafnanna minni til þess, að deilt hafi verið um uppruna orkunnar áður en kerfi upprunaábyrgða var tekið upp, enda var þá uppruninn aðeins einn – sumsé raunveruleikinn. Þá sagði hann kerfið nauðsynlegt fyrir raforkunotendur á samtengdum orkumarkaði í Evrópu, sem vildu vottun á því að orkan sem flæddi um innstunguna væri græn. Að vísu værum við svo heppin að Ísland væri ótengt raforkumarkaðnum í Evrópu og uppruninn lægi því ljós fyrir hér á landi. En við fengjum það skjalfest með kerfinu frá Brussel. Það hlýtur að vera mörg hundruð milljóna virði fyrir íslenskt atvinnulíf að geta bætt því á raforkureikninginn.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 19. janúar 2023