Meirihlutinn í borgarstjórn er fallinn samkvæmt nýrri könnun Maskínu en rétt rúmur mánuður er í kosningar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var fljótur að bregðast við þessum tíðindunum með enn einu kosningaloforðinu á Twitter í vikunni. Lýsti hann því yfir að verslun ÁTVR yrði áfram í miðborginni, en sem kunnugt hefur mikil umræða verið um mögulega lokun verslunarinnar í Austurstræti og opnun nýrrar úti á Granda.

„Á fundi með forstjóra ÁTVR handsöluðum við að búðin í Austurstræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum. Upplýsti hann að ef Austurstrætinu yrði lokað yrði auglýst eftir 1-2 vel staðsettum en minni verslunum á miðborgarsvæðinu til að koma í staðinn. Þetta finnst mér góð niðurstaða," tísti borgarstjórinn um fund sinn með Ívari Arndal, forstjóra ÁTVR.

Hrafnarnir vita ekki hvort Degi hafi með þessu tekist að auka fylgi sitt. Stærstu tíðindin í þessari yfirlýsingu að mati hrafnanna eru að borgarstjóra hafi tekist að finna forstjóra ÁTVR.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .