Það er eitt sem forsvarsmenn matvöruverslana á Íslandi eiga sameiginlegt. Þeir hafa enga þolinmæði fyrir ASÍ og allra síst verðlagslagseftirlitinu sem það sinnir. Reglulega birtist gagnrýni verslunarmanna, yfirleitt úr verslunum þeirra þar sem verð hefur hækkað mest, á aðferðir eftirlitsins.

Gagnrýnin er stundum málefnaleg og þá yfirleitt á þeim nótum að ákveðnar vörur séu ekki sambærilegar. Oft kveður þó við annan tón. Aðferðir ASÍ eru sagðar úreltar, óvandaðar og menn kvarta undan því að fá ekki tækifæri til athugasemda. Þá hefur jafnvel verið kvartað undan því að ekki sé tekið tillit til mismunandi þjónustustigs. Þetta hefur svo leitt til þess að dýrustu verslanirnar hafa dregið sig úr verðlagskönnunum.

Maður veltir því fyrir sér hvernig forsvarsmenn sumra verslana vilja helst sjá eftirlitið framkvæmt. Ætti ASÍ, eða einhver annar, að senda þeim tölvupóst og biðja um verð á ákveðnum vörum? Eiga starfsmenn að leiðbeina eftirlitsfólki í gegnum verslanir til að sjá til þess að það finni „rétt“ verð og „réttar“ vörur? Á að deila í verðið með stuðli sem er einhver stærðfræðileg blanda af fermetrafjölda, vöruúrvali, starfsmannafjölda, opnunartíma og biðtíma á kassa til að taka með í reikninginn þjónustustig verslana? Viðskiptavinir eru sjaldnast svo vitlausir að þekkja ekki sjálfir hvar þeim finnst þægilegast og skemmtilegast að versla óháð vöruverði.

Fyrir viðvaning, eins og mig, þá blasir það við að menn séu að rífast yfir hlutum sem oftast nær eru verðlagseftirliti óskyldir. Frumskilyrði slíkra kannana hlýtur að vera að sá sem gerir könnunina geri það út frá eigin forsendum og óháð verslunum sjálfum. Verslanir eiga sem sagt ekki að koma nálægt eftirlitinu. Þetta þarf ekki að vera flókið. Eftirlitsfólk er sent í verslanir á sama tíma, skráir niður verð á fyrirfram ákveðnum vörum og vöruflokkum og tilkynnir svo niðurstöðurnar. Svo geta menn bitið í það súra epli að einhver annar hafi verið ódýrari en reynt að bæta úr því fyrir næstu könnun í stað þess að trompast yfir eftirlitinu í fjölmiðlum.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 21. febrúar.