Ekki var mikið gert til að rýna í málflutning Sigurpáls Ingibergssonar í Fréttablaðinu þriðjudaginn 14. febrúar, heldur birtist sama þulan í hans nafni á þremur stöðum í blaðinu, fyrst á forsíðu, síðan í frétt Björns Þorlákssonar og loks í aðsendri grein, allt í sama blaðinu! Í öllu verkfallsbröltinu virðist talsverð gúrkutíð hjá fríblaðinu.

Sigurpáll gagnrýnir stóriðjufyrirtæki og Icelandair fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, nokkuð sem alltaf hefur legið fyrir, en nefnir hvergi að enn hafi ekki verið fundin upp tækni til að sinna þeirri starfsemi án losunar, né heldur að fyrirtækin eru að greiða fyrir sína losun með þátttöku í samræmdu viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Athyglisvert er að Sigurpáll er titlaður sérfræðingur á forsíðunni, tölvufræðingur og gæðastjóri í fréttinni, og gæðastjóri í aðsendu greininni, en hvergi er minnst á að hann sé gæðastjóri Vínbúðanna. Ekki kemur heldur fram að hann hafi átt sæti í aðgerðahópi Landverndar. Þannig var það þó síðast þegar spurðist.

Ekki þarf því að koma á óvart að hann sé andsnúinn flugi og stóriðju, enda hefur Landvernd þau yfirlýstu markmið í loftslagsmálum að draga úr flugi og að hafna stóriðju.

Það er gott og gilt að fólk og fyrirtæki leggi sig fram um að fækka flugferðum, þó að örðugt sé um vik á eyjunni Íslandi, en varla raunhæft að ætlast til að flugfélagið Icelandair meini fólki að fljúga. Svo verður seint talið loftslagsmál að leggja niður þá stóriðju sem losar minnst á hnattræna vísu, enda er loftslagsvandinn hnattrænn en ekki staðbundinn.

En það er skiljanlegt að hjá Landvernd snúist allt um að vernda náttúruna fyrir mannfólkinu. Mögulega telst það náttúruvernd í einhverjum skilningi að berjast gegn nýtingu endurnýjanlegrar orku. En það er hreint og beint hallærislegt að halda því fram að það sé í þágu loftslagsmála.

Þar er Landvernd sjálfskipaður hagsmunavörður þeirra sem vilja enga frekari nýtingu á orkuauðlindum landsins, án þess þó að sjá ástæðu til að tilkynna sig til Stjórnarráðsins sem hagsmunavörð, eins og fjallað hefur verið um hér í blaðinu. Ef til vill forðast samtökin þann stimpil, þannig að þau geti haldið áfram að breiða út sinn boðskap í hátt í 300 skólum landsins í gegnum grænfána-verkefnið.