Það virðist með öllu ómögulegt að ná nokkurri skynsemi í umræðu og umfjöllun um hvalveiðar við Íslandsstrendur. Það er sjálfsagt að ræða það hvort það borgi sig fyrir land og þjóð að leyfa þessar veiðar en ef sú umræða á að skila einhverju er nauðsynlegt að hún byggi á gögnum og upplýsingum sem standast skoðun, ekki á vanþóknun háværs lítils hóps sem byggir á misskilningi um að verið sé að veiða hvali í útrýmingarhættu.

***

Hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar hafa verið helstu álitsgjafar fjölmiðla í þessum efnum þrátt fyrir að viðbrögð þeirra séu fyrirsjáanleg. Framkvæmdastjóri SAF sagði fyrirtæki fá ýmis skilaboð vegna hvalveiðanna án þess þó að um afbókanir væri beinlínis að ræða. Með öðrum orðum virðast einhverjir útlendingar andsnúnir hvalveiðum en ekki nógu mikið til að afbóka.

***

Það má velta því upp hversu langt við ætlum að ganga í þeim efnum að láta (illa upplýstar) skoðanir útlendinga á innanlandsmálefnum ráða för? Hvað ætli margir íhaldssamir kanar hafi ekki áhuga á að ferðast til Íslands vegna réttinda samkynhneigðra hér á landi? Réttinda kvenna til þungunarrofs?

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 28. júlí 2022.