Það er óhætt að fullyrða að árið sem er að líða hafi verið afar viðburðaríkt. Áhrif heimsfaraldursins eru sífellt að koma betur í ljós og er viðvörunarbjöllum sífellt að fjölga í þeim efnum. Við stöndum á tímamótum sem samfélag og munum við þurfa að takast á við margar áleitnar spurningar og áskoranir á næstu misserum og árum.

Verðbólga hefur hækkað mikið undanfarið og virðist á miklu skriði. Þegar þetta er skrifað mælist hún 5,1% eða 3,3% ef húsnæðisliður er tekin út. Svar Seðlabankans hingað til er að hækka vexti sem aftur hækkar húsaleigu og afborganir lána og býr til mikla tilfærslu á fjármunum úr vösum almennings til fjármagnseigenda. Þá stíga talsmenn sérhagsmuna, og Seðlabankinn fram með skýringar og hugmyndir sem standast litla sem enga skoðun. Launahækkunum er jafnan kennt um, sem er hluti af þekktri áróðursherferð gegn nauðsynlegum kjarabótum til að viðhalda lífskjörum vinnandi fólks.

Sem betur fer sjá flestir í gegnum þennan ósmekklega áróður. Ef ekki væri fyrir áhrif mikilla hækkana á húsnæðismarkaði væri Seðlabankinn í ásættanlegri stöðu við stjórn peningamála og verðbólgumarkmiða. En það er ekki bara húsnæðiskreppan sem er að keyra upp verðbólgu. Áhrif heimsfaraldursins á erlenda framleiðslu er að leggjast af fullum þunga á verðlag. Það liggur fyrir að verðlagshækkanir frá heildsölum og framleiðendum voru 3-10% í nóvember og 5-12% í desember. Nú berast tilkynningar um hækkanir í janúar sem nema frá 5-25%.

Þessar miklu hækkanir sem hrúgast yfir samfélagið eru vegna erlendra hækkana sem skýrast af hærri framleiðslukostnaði vegna hækkunar hrávöruverðs, flutninga, orku og umbúða. Áhrif sem hafa ekkert að gera með kjarasamningsbundnar launahækkanir á Íslandi.

Það blasir við að aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara. Að hækka stýrivexti við þessar aðstæður hefur lítil sem engin áhrif á stöðuna, nema til hins verra, þegar þrýstingur á verðbólgu er vegna erlendra hækkana og sjálfskaparvíti stjórnvalda í húsnæðismálum. Slík viðbrögð eru ekki boðleg íslenskum almenningi og fyrirtækjum.

Staðan fer sífellt versnandi og mun þrýsta á enn hærri kaupkröfu á atvinnulífið sem eru einu viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar til að standa undir síhækkandi kostnaði við að lifa.

Það er hinsvegar margt hægt að gera til að milda höggið og sérstaklega fyrirsjáanleg áhrif erlendra hækkana sem líklega ganga til baka að einhverju leyti. Stjórnvöld gætu lækkað álögur á nauðsynjavörur og eldsneyti tímabundið til að bregðast við þessum áhrifum ásamt því að hefja þjóðarátak í húsnæðismálum í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Aðgerðir sem eru auðframkvæmanlegar ef raunverulegur vilji er fyrir hendi.

En vandinn er ekki bara aðgerðarleysið heldur vantraustið. Vanefndir stjórnvalda í stórum málum sem voru hluti af síðustu kjarasamningum gera stöðuna enn verri. Verkalýðshreyfingin getur ekki gert ráð fyrir aðkomu stjórnvalda í næstu kjarasamningum vegna vanefnda úr þeim síðustu. Sem gerir það að verkum að atvinnulífið verður eini viðsemjandinn. Það dettur varla nokkrum í hug að verkalýðshreyfingin láti plata sig í þríhliða samkomulag við sömu ríkisstjórn og svikið hefur sín loforð. Nema firring stjórnvalda sé slík að hún telji nóg að lofa bara sömu hlutunum aftur og aftur án þess að standa við neitt. Það tókst og hélt henni á floti í síðustu kosningum en það mun ekki gerast í næstu kjarasamningum.

Til að bæta gráu ofan á svart er staðan á erlendum fjármálamörkuðum ógnvænleg og minnir um margt á aðdraganda bankahrunsins 2008, sem má að stórum hluta rekja til fasteignabólunnar í Bandaríkjunum, sem svo afhjúpaði eina umfangsmestu spillingu innan fjármálakerf­isins í nútíma sögu. Bæði í aðdraganda hrunsins og í eftirmálum þess. Nú er ljóst að kínverska fasteignabólan er við það að springa og ljóst að hún mun hafa mikil áhrif á markaði. Hvort það verði sambærileg ruðningsáhrif og 2008 er erfitt að segja en óhætt er að fullyrða að allt sem fer upp kemur einhvern tíma niður. Sérstaklega þegar fjármálamarkaðir eiga í hlut.

Seðlabankar heimsins hafa séð til þess að keyra upp núverandi bólu með hrárri peningaprentun, magnbundinni íhlutun, á skala sem ekki á sér hliðstæðu. Aldrei í sögunni hefur hlutabréfaverð verið eins hátt og aldrei í sögunni hefur hækkunarferlið verið lengra í árum talið. Og rétt eins og í aðdraganda hrunsins 2008 haga sér allir þannig að verðið á hlutabréfum geti ekki farið annað en upp.

Hversu lengi getur þetta gengið og hversu miklu verður varið til að halda þessu gangandi? Og hver verða áhrifin þegar spilaborgin hrynur?

Staðan á eftir að versna til mikilla muna og rífa vel í pyngjur okkar félagsmanna. Þegar þrengja fer enn frekar að högum og kjörum vinnandi fólks og röng forgangsröðun og aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart alvarlegri stöðu verða félagsmönnum okkar endanlega ljós verður auðsótt fyrir hreyfinguna að sækja sér umboð til átaka.

Það er því undir stjórnvöldum komið hvort þau klári það sem eftir stendur af gildandi kjarasamningum og bregðist tafalarlaust við þeirri stöðu eins og ofar er lýst, eða ætla þau áfram að spila rússneska rúllettu með þolmörk þjóðarinnar með aðgerðarleysi og sérhagsmunadekri á kostnað almennings?

Höfundur er formaður VR.