Ég er ekki viss um að við Íslendingar gerum okkur alltaf grein fyrir því hvað við búum við einstakar aðstæður. Sjálfur bý ég í Mosfellsbæ. Það tekur mig 10 mínútur að hjóla upp að Úlfarsfelli og 25 mínútur upp að Esju. Ég er með tvær sundlaugar í innan við 10 mín göngufæri. Fátt veit ég betra en að byrja daginn á að hjóla og gönguferð upp á gott fjall eða fell og enda svo í pottinum á eftir. Forréttindi í mínum huga. Heildarkostnaðurinn við þessa ferð er um 500 kr. sem er gjaldið í sundlaugina.

Ef við erum ekki týpurnar til þess að fara inn á líkamsræktarstöðvar og skýlum okkur á bak við það að nenna ekki að æfa inni þá er engin afsökun fyrir því að vera ekki í góðu formi. Við lifum í heilsuparadís þar sem aðgengi og möguleikar að alls kyns hreyfingu eru upp á tíu. Við þurfum nánast að loka augunum til þess að sjá ekki alla þá fegurð sem við búum við.

Við hjá Boot Camp erum að vinna með norskri ferðaskrifstofu í að bjóða heilsuferðir fyrir norskar konur til Íslands. Um er að ræða tveggja vikna ferðir þar sem t.d er farið á Esjuna, í sund og æfingar stundaðar í náttúrunni. Fjöldi fyrirtækja er að bjóða heilsumiðaðar ferðir fyrir útlendinga og er það vel.

Það gleður mig mjög að heilsutengd starfsemi er að vaxa ört á Íslandi. Ekki bara fyrir erlenda ferðamenn heldur líka Íslendinga. Heilsuklasar poppa upp hér og þar um landið. Dæmi um einn slíkan er Heilsuvin í Mosfellsbæ sem hefur það að markmiði að efla atvinnuuppbyggingu í hvers kyns heilsutengdri þjónustu með því að vinna saman að þróunar- og markaðsstarfi. Aldrei hefur verið til meira úrval af veitingastöðum sem sérhæfa sig í hollum matarlausnum. Matvöruverslanir bjóða mun meira úrval af hollum afurðum og mötuneyti fyrirtækja eru farin að skipta út unnum vörum fyrir ferskt hráefni.

Höldum áfram á sömu braut. Aukin hreyfing og hollt mataræði fær okkur til að brosa enn breiðar.