Í sumarbyrjun ár hvert bíður Týr spenntur eftir útgáfu eins merkasta rits hvers árs innan íslenska stjórnkerfisins, ársskýrslu ÁTVR. Skýrslan hefst jafnan á því að andlitslausi forstjóri stofnunarinnar, Ívar J. Arndal, ver tilverurétt einkaréttar ríkisins á sölu áfengis með kjafti og klóm. Engin breyting er á því í nýútkominni skýrslu ársins 2022 þar sem Ívar bregður sér í hlutverk sagnfræðings og rekur sögu áfengisneyslu heimsbyggðarinnar frá örófi alda og hvernig ríkisrekstur á sölu áfengis hafi bjargað mannkyninu frá glötun.

Ívar minnist þess hvernig áfengisbann sem lagt var á vestanhafs hafi ekki leyst þann mikla áfengisvanda sem hrjáði heimsbyggðina á 19. öld. Þá kom olíubaróninn og bindindismaðurinn John D. Rockfeller fram á sjónarsviðið eins og riddari á hvítum hesti með lausnina; hugmyndafræðina sem forstjórinn segir að lagt hafi grunninn að starfsemi ríkisrekinna áfengisverslana. Eins og áhugamenn um andlitslausa forstjórann vita er Rockfeller átrúnaðargoð hans og helsta fyrirmynd. Þannig birtist nær orðrétt sami lofsöngur um föður ríkiseinokunar í áfengissölu í ársskýrslu 2022 og gerði í ársskýrslunni árið 2021. Í báðum ársskýrslunum birtir hann sömu tilvitnun í átrúnaðargoðið úr formála bókar sem gefin var út fyrir 90 árum síðan:

„Aðeins þegar hagnaðarhvötinni hefur verið eytt er von til þess að hægt sé stjórna áfengissölunni til hagsbóta fyrir sómasamlegt samfélag. Allar aðrar leiðir eru yfirklór og dæmdar til að mistakast. Á þetta þarf að leggja ofuráherslu.“

„Eins merkilega og það kann að hljóma voru fyrstu vínbúðirnar í eigu einkaaðila.“

Forstjórinn beinir sjónum sínum jafnframt að árdögum laga um einkasölu áfengis hér á landi og lætur þessi fleygu orð falla: „Eins merkilega og það kann að hljóma voru fyrstu vínbúðirnar í eigu einkaaðila.“ Ríkið hafi þó séð um innflutning, verðlagningu, dreifingu og eftirlit, en þess utan fékk einkaframtakið að njóta sín í botn.

Eftir tilþrifamikla söguskýringu á helstu afrekum ÁTVR í aldanna rás víkur Ívar að þeim miklu umskiptum sem hafi orðið á rekstri ÁTVR á síðustu árum og áratugum. „Áður var verslunin gamaldags og íhaldssöm ríkisstofnun með fáum verslunum, litlu vöruúrvali, afgreiðslu yfir borð og starfsfólki í einkennisklæðum sem tóku mið af fatnaði lögreglu og tollvarða. Í dag er ÁTVR margverðlaunað þjónustufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og góða þjónustu og er verslunin í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins.“

Misst sjónar á lögbundinni skyldu sinni

Forstjórinn virðist ekki hafa kynnt sér nægilega vel lögin sem hans eigin stofnun starfar samkvæmt því í lögum um verslun með áfengi og tóbak kemur fram að eitt af markmiðum laganna sé „að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu.“

Eins og landsmenn hafa margir tekið eftir virðist það vera ein mikilvægasta byggðarstefna landsins að í hverjum bæ og sveit skuli vera rekin verslun ÁTVR. Ekki nóg með það virðist það sjálfsögð krafa að hægt sé að nálgast 12 ára viskí af bestu sort á Blönduósi. Þegar forstjóri ÁTVR hrósar stofnun sinni fyrir hve magnaða þjónustu hún veiti, auk þess að reka verslun í nánast hverju einasta byggða bóli, þarf engan speking til að sjá að stofnunin er fyrir löngu búin að missa sjónar á lögbundinni skyldu sinni; sem er að takmarka aðgengi að áfengi.

Færðu niður markmið um ánægju landsmanna með fyrirkomulag áfengissölu

Annað sem vakti athygli Týs er að það er greinilega ekki aðeins yfirlýst markmið forstjóra ÁTVR að standa vörð um úrelt fyrirkomulag áfengissölu hér á landi, heldur setti stofnunin sjálf sér það markmið að 60% landsmanna væru ánægð með fyrirkomulagið á áfengissölu árið 2022. Gallup var fengið til að kanna ánægju landsmanna með fyrirkomulagið og samkvæmt ársskýrslunni varð niðurstaðan sú að 54% landsmanna sögðust ánægð með fyrirkomulagið. Í ljósi niðurstöðu könnunar síðasta árs ákvað stofnunin að stilla væntingum í hóf fyrir yfirstandandi ár og setti markmið um að 55% landsmanna væru ánægðir með núverandi fyrirkomulag áfengissölu á þessu ári.

Þrátt fyrir að forstjórinn og stofnunin sem hann stýrir berjist kröftuglega fyrir eigin tilverurétti er sem betur fer, fyrir neytendur, til atorkusamt fólk sem sættir sig ekki við úr sér gengið fyrirkomulag áfengissölu og hefur fundið leið fram hjá því. Netverslanir sem selja áfengi beint til neytenda hafa sprottið upp sem gorkúlur á undanförnum árum. Þrátt fyrir að forstjóri ÁTVR hafi gert sitt allra besta til að kæfa það framtak er ljóst að takmarkaður áhugi er fyrir því hjá þeim sem valdið hafa til að berjast gegn framtaki rekstraraðilanna, sem í mörgum tilfellum bjóða lægra verð og betri þjónustu en ríkiseinokunarverslunin.

Týr telur ljóst að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær horfið verður frá forneskjulegum einkarétti ríkisins til sölu á áfengi. Fyrst helsta keppikefli ÁTVR virðist vera að veita framúrskarandi þjónustu og hafa verslanir sínar aðgengilegar sem víðast, er þá ekki allt eins gott að breyta fyrirkomulaginu og gefa einkaaðilum færi á að reka áfengisverslanir í eðlilegum samkeppnisrekstri? Eins og mýmörg dæmi sanna eru einkaaðilar mun betur til þess fallnir að stunda verslunarrekstur en ríkið.

Svo lengi sem þess er gætt að ekki sé verið að selja guðaveigar til ungmenna sem ekki hafa aldur til að versla eða neyta áfengis, skiptir þá nokkru máli hvort það sé ríkisstarfsmaður eða launamaður á almennum vinnumarkaði sem sér um að afgreiða áfengi til neytenda?

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins.