Skýrsla starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum, með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var á þriðjudag er gagnlegur upphafspunktur að umræðu sem þarf að fara fram hér á landi. Skýrslan dregur fram staðreynd sem margir hefðu að óreyndu talið  óumdeilanlega: Að orkuskipti kalli á aukna framleiðslu raforku hér á landi. Sú framleiðsla þarf síðan að haldast í hendur við væntingar um áframhaldandi hagvöxt og framþróun efnahagslífs.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að til að ná markmiðum stjórnvalda um full orkuskipti, uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum og viðhalda hagvexti þarf að auka raforkuframleiðslu um 124% frá því sem nú er hið minnsta. Það þýðir að virkja þarf að minnsta kosti 100 megavött á hverju ári næstu tvo áratugina.

Eins og fyrr segir hefðu flestir haldið að þetta væri óumdeilanleg staðreynd. Við gerð skýrslunnar leitaði starfshópurinn eftir sjónarmiðum fulltrúa Landverndar. Þeir telja til að mynda að orkuskipti geti farið fram án þess að raforkuframleiðsla verði aukin. Sviðsmynd samtakanna í skýrslunni er lögð fram á þeirri forsendu að hagvexti hér á landi sé formlega lokið. Sumir myndu telja að þessi stefna væri ígildi þess að leggja til að landsmenn myndu láta staðar numið við 3G-væðingu símakerfisins á sínum tíma. Enn aðrir myndu segja að þetta væri ígildi þess að landsmenn sættu sig við þau lífskjör sem voru í boði á sjöunda áratugnum.

Landvernd færði frekari rök fyrir málflutningi sínum með fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla í gær. Þar segir:

„Það verður alltaf eftirspurn eftir ódýrri orku og ómögulegt að mæta óheftri eftirspurn. Loftslagskrísan er orkukrísa. Heimsbyggðin notar miklu meiri orku en hægt er að framleiða á sjálfbæran hátt. Því verður að gera kröfur á allt atvinnulífið um að draga úr orkunotkun sinni og setja fram skýra stefnu um að forgangsraða orku til almennings og orkuskipta. Aðeins þannig verður hægt að taka trúanlegt að markmiðið sé ekki að búa til réttlætingu á því að belgja út orkugeirann í fjárhagslegum tilgangi eingöngu - heldur raunverulega að vinna að lausn loftslagsvandans."

Ljóst er að verði sú leið sem Landvernd leggur til farin mun það fela í sér stórfellda atlögu að lífskjörum í landinu. Því verður seint trúað að vilji landsmanna standi í raun og veru til þess að feta þá slóð.

Málflutningur Landverndar snýr með öðrum orðum að því að hægt sé að nýta raforkuna sem stórnotendur nota nú til orkuskipta innanlands. Sú röksemdafærsla heldur engu vatni. Raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þær gera okkur kleift að kaupa hinar ýmsu nýlenduvörur. Til dæmis rafbíla og rafknúin skip og flugvélar þegar fram líða stundir. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það mætti í raun líkja þessu við að Ísland léti af innflutningi á matvælum, drægi úr útflutningi á sjávarafurðum og neytti þeirra innanlands í auknum mæli. Þó svo að íslenski fiskurinn sé hnossgæti og kjarnafæði er engu að síður líklegt að tilveran yrði aðeins daufari fyrir vikið.

Ekki verður fram hjá því litið að hugmyndir Landverndar um ráðstöfun raforku hér á landi boða einfaldlega meinlæti. Að landsmenn sætti sig við þau lífskjör sem voru í boði á sjöunda áratugnum. Byggir sviðsmynd samtakanna á þeirri forsendu að hagvexti hér á landi sé formlega lokið.

Hvað sem sjónarmiðum Landverndar líður er ljóst að skýrsla starfshópsins er ágætur grunnpunktur að umræðu sem brýn þörf er á að fram fari. Eins og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, benti á í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir hálfum mánuði er tíminn jafnframt dýrmætur í þessum efnum. Það tekur langan tíma að hrinda virkjunaráformum eða öðrum framkvæmdum til þess að auka orkuöflun í framkvæmd. Sennilega höfum við misst af lestinni af einhverju leyti í þessum efnum og fjölmörg tækifæri til að nýta vistvæna raforkuframleiðslu til að stuðla að grænum iðnaði hafa nú þegar farið forgörðum. Meðan rætt er um hvort eigi yfir höfuð að auka orkuöflun Íslendinga vex eftirspurnin og ljóst er að ef ekkert verður gert munum við missa af fjölmörgum tækifærum sem gætu skapast hér í grænum iðnaði. Framtíðin er græn segja innblásnir stjórnmálamenn þegar vel liggur á þeim. Hægt er að taka undir það en að sama skapi er brýnt að menn geri sér grein fyrir því að hin græna framtíð er samofin við að Íslendingar nýti tækifæri sín til orkuöflunar og standi þar með vörð um vöxt og viðgang efnahagskerfisins.