*

miðvikudagur, 27. október 2021
Þorkell Sigurlaugsson
25. september 2021 13:22

Horfa þarf til hagsmuna lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Atvinnufjelagið mun vinna markvisst að hagsmunavörslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og einyrkja, sem talsvert hefur skort á.

Aðsend mynd

Eins og kynnt var í síðustu viku þá verður í október stofnað nýtt félag, Atvinnufjelagið sem mun horfa sérstaklega til hagsmuna lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Undirtektir hafa verið mjög góðar enda gáfu skoðanakannanir til kynna að þörf væri á þessu félagi.

Atvinnufjelagið mun vinna markvisst að hagsmunavörslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og einyrkja. Talsvert hefur skort á sýnileika þeirra og draga þarf betur fram þátt lítilla og meðalstórra fyrirtækja við nýsköpun og atvinnuþróun og sérstöðu þeirra, þarfir og mikilvægi í atvinnuuppbyggingu 21. aldar.

Tilgangur og markmið

Tilgangur og markmið félagsins snýst aðallega um þrjá þætti.

  • Að berjast fyrir einfaldara og sanngjarnara regluverki; að opinberar álögur og gjöld, leyfisgjöld og skattlagning taki mið af stærð félaga og rekstrarumfangi.

  • Að bæta aðgengi að fjármagni, og vextir og veðkröfur eru litlum og meðalstórum fyrirtækjum mjög íþyngjandi.
  • Að kjaramál taki betur mið af hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ný fyrirtæki hafa sprottið upp í atvinnugreinum sem ekki voru öflugar fyrir einum til tveimur áratugum. Á það m.a. við um fyrirtæki í ferðaþjónustu, veitingastarfsemi, skapandi greinum, afþreyingu og margs konar hugverkaiðnaði, nýsköpun og þjónustu.

Lýðræðisgrunnur félagsins byggir á jöfnu atkvæðavægi þar sem eitt atkvæði fylgir hverju félagi óháð stærð. Öll fyrirtæki og einyrkjar í hvaða atvinnustarfsemi sem er geta orðið félagar í Atvinnufjelaginu svo framarlega sem þau hafa hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi. Atvinnufjelagið er ekki stofnað til höfuðs öðrum félagasamtökum heldur mun félagið leggja áherslu á samstarf við önnur hagsmunafélög atvinnulífsins.

Grunngerðin að breytast

Djúpstæðar breytingar hafa átt sér stað í grunngerð efnahagskerfisins, alþjóðlega og hér á landi. Þetta hefur verið að gerast smátt og smátt á síðastliðnum 30 árum eða svo og síðan sprungið út á síðasta áratug. Tækniþróun, og ekki síst internetið og nýting rafrænnar miðlunar, hefur drifið áfram þessar breytingar sem hefur verið kölluð 4. iðnbyltingin. Ekki síst hefur þessi tækniþróun átt sér stað innan lítilla fyrirtækja.

Þessi bylting snertir núna öll svið samfélagsins. Hefðbundnir fjölmiðlar, t.d. prentuð dagblöð, eru fórnarlömb þessarar internetbyltingar, ef við getum kallað það því nafni, og hið stafræna samfélag og samfélagsmiðlar hafa tekið yfir. Miklar breytingar eiga eftir að verða innan heilbrigðiskerfisins þar sem heilbrigðis- og líftækni mun opna fjölmarga möguleika fyrir lítil fyrirtæki að hasla sér völl í nýsköpun og atvinnuþróun á þessu sviði.

Netverslun er að stóraukast og breytast og nýleg innkoma netfyrirtækja með sölu á áfengi er dæmi um þróun sem kom óvænt í bakið á einokunarverslun ÁTVR. Vínkaupmenn telja þetta lýðheilsumál og vissulega er netverslun heppilegri en að áfengi komi fyrir almenningssjónir í matvöruverslunum auk þess sem þetta er tímasparandi og hentar vel fyrir fatlaða og aldraða. Horft til baka þá er þetta þriðja bylgja breytinga frá þeim tíma sem beðið var í hóp fyrir framan afgreiðsluborðið í Lindargötu-ríkinu á áttunda áratug síðustu aldar.

Umbreyting í störfum

Ekkert fær stöðvað þá gríðarlegu breytingu sem er að verða í samfélaginu og á mörgum sviðum eru breytingar rétt að byrja. Sú kynslóð sem nú er að fara inn á vinnumarkaðinn á næstu árum fellur ekki endilega vel að gamaldags kerfum kjarabaráttu og stéttaátaka. Atvinnurekendur, starfsfólk fyrirtækja og stjórnmálamenn verða að átta sig á þessum breytingum og áhrifum þeirra á atvinnulífið og vinnumarkaðinn.

Félagskerfi vinnumarkaðarins er ekki að þróast í takt við þessar breytingar. Átakapólitík verkalýðshreyfingarinnar er enn talsvert sniðin að hugmyndafræði 19. og fyrri hluta 20. aldar og að sumu leyti eins og það sé að verða afturhvarf til baráttuaðferða og orðfæra fortíðar. Umbreyting er að verða í daglegum störfum, hvar og hvenær fólk er að störfum og ný tækni tekur við af gömlum flóknum verkferlum. Á sama tíma er þjarkað um taxta, yfirvinnu, styttingu vinnuvikunnar og ýmsa þætti sem eiga upphaf sitt á verksmiðjugólfi spunaverksmiðju 19. aldar.

Atvinnufjelagið á brýnt erindi við borð „aðila vinnumarkaðarins“ og inni á nefndarfundum Alþingis. Lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa að vera þátttakendur og jafnvel leiða ýmsar breytingar á vinnubrögðum, regluverki, fjármálaþjónustu og löggjöf sem snertir þennan þögla meirihluta fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífinu.

Um helgina skýrist það hvers konar framtíð fólkið kýs

Um helgina ræðst það hvers konar ríkisstjórn við fáum. Óháð því hver úrslitin verða, þá mun Atvinnufjelagið standa vaktina – gæta hagsmuna einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með það að markmiði að bæta lífskjör fólksins í landinu. Atvinnufjelagið mun koma þar við sögu!

Höfundur er stjórnarmaður í Atvinnufjelaginu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.