Eins og nöfn þeirra gefa til kynna fylgjast Huginn og Muninn grannt með gangi mála á HM í Katar. Þrátt fyrir mótahaldið sé umdeilt vegna ástands mannréttindamála í ríkinu er margt á mótinu til eftirbreytni. Þannig fagna hrafnarnir því sérstaklega að á síðustu stundu ákvað mótstjórnin að sækja í smiðju Knattspyrnusambands Íslands og banna alfarið sölu bjórs á leikvöngum keppninnar.

Hrafnarnir telja að þarna sé komin skýring á veru Vöndu Sigurgeirsdóttir í Katar. Rétt eins hefðin hefur verið á Laugardagsvellinum gegnum tíðina er bannið ekki algilt: Þeir sem hafa aðgang að VIP-stúkum keppninnar geta fengið sér nokkra skítkalda á meðan á leik stendur. Einnig er jákvætt fyrir orðspor Íslands að Katarar sæki sér fyrirmyndir til Íslands og KSÍ  í jafn ríku mæli og raun ber vitni þegar kemur að áherslum í lýðheilsu- og íþróttamálum.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 24. nóvember 2022.