Sagt hefur verið að smá samkeppni sé af hinu góða en að mikil samkeppni sé hrein blessun. Blessun að því leyti að framleiðendur og þjónustu­ aðilar eru þá á tánum og neytendur njóta góðs af í verði og ánægju með viðskiptin.

Félag atvinnurekenda (FA) er ekki hrifið af smá samkeppni frá netverslun með vín og frá inn­lendum brugghúsum. Árum saman hefur FA varið hillupláss stærstu innflytjenda á áfengi og áfengisframleiðenda í vínbúðum ÁTVR með grímulausri hagsmunabaráttu sem snúist hefur um að tefja fyrir framgangi tillagna á Alþingi um rýmkun á einokunarverslun ríkis­ins með áfengi. Netverslun á aug­ljóslega framtíðina fyrir sér á þessu sviði og litlu brugghúsin eru orðin að litríkri viðbót við vínmenningu okkar.

Bjarni afdráttarlaus

Nýjasta útspilið hjá „Félagi hilluplásshafa í Áfengisverslun ríkisins“, eins og gárungarnir eru farnir að kalla FA, er að krefja fjármálaráðherra tafarlausra svara við spurningum, sem hann hefur þegar svarað skilmerki­lega, um lögmæti netverslunar með áfengi.

Bjarni Benediktsson hefur verið afdráttarlaus í því mati sínu að netverslanir með áfengi starfi innan ramma EES-­samstarfsins ( Morgunblaðið 21. júlí 2021 ). Hann fagnar net­verslun með áfengi, enda frábær viðbót að hans dómi. Hann hefur einnig sagst eiga erfitt með að sjá að hún stangist á við lög. Skýrara getur það ekki verið af hálfu ráðherrans, en áfengislögin heyra þó undir dómsmálaráðherra sem er, að því er best er vitað, sama sinnis.

Knýja þarf á um lögin

Auðvitað getur FA óskað eftir því við ráðuneytið, sem ber ábyrgð á ÁTVR, að það lýsi mati sínu. Endanleg niðurstaða fæst þó líklega ekki nema leitað verði til dómstóla, eins og ÁTVR reynir að knýja fram. Úr óvissu má jafn­framt leysa með lagabreytingu. Þá væri ekki ónýtt að geta geng­ið að ein dregnum málflutningi FA vísum, heyra félagið taka kröftug­lega undir kröfur um skref til aukins viðskiptafrelsis og frjálsræðis í viðskiptum með áfengi á sama hátt og félagið berst á ýmsum öðr­um sviðum viðskipta.

Fullvissa og samkeppni

Annaðhvort algjört frelsi eða áframhaldandi og óbreytt ríkis­einokun er ekki raunsæ stefna, hvort heldur sem lagður er á hana mælikvarði viðskiptaþróunar eða lýðheilsu. Það er því fagnaðarefni að stærstu áfengis­innflytjendur og ­framleiðend­ur er farið að klæja í samkeppn­istærnar sem vísað var til í upphafi. Nú vilja þeir aðeins fá fullvissu um að allt sé innan ramma laga og reglna og að henni fenginni munu þeir hella sér út í samkeppnina. Hver sú „ljúfa Anna verður sem lætur þá vissu fá“ er erfitt að átta sig á um þess­ar mundir: Áslaug Arna ráðherra dómsmála, ráðuneytin, dómstólar eða Alþingi? En meðan á þessari óvissu stendur má ganga út frá því sem vísu að brugghús og netverslanir muni þróast og úr verða hörð samkeppni við þá sem fyrir eru innanstokks hjá ÁTVR.

Höfundur er áfengisinnflytjandi.